22/12/2024

Ketilbjöllumót við Kotbýli kuklarans

Á dögunum var haldið bráðskemmtilegt keppnismót og kynning á líkamsrækt með ketilbjöllum við Kotbýli kuklarans á Klúku í Bjarnarfirði. Veðrið var eins og best verður á kosið eins og sést á meðfylgjandi myndum. Að lokinni kynningu á þessu hjálpartæki við líkamsrækt sem má kynnast nánar á vefsíðunni www.kettlebells.is fór fram keppni þar sem fyrst var keppt í að kasta bjöllunum með ákveðinni tækni og síðan í bændagöngu. Það eru Vala Mörk og Guðjón Svansson frá Svanshóli í Bjarnarfirði sem stóðu að kynningunni.

Keppnin var hin skemmtilegasta og allur árangur skráður samviskusamlega. Konurnar kepptu með 8 kg ketilbjöllu í kastgreininni og sigurvegarinn í þeirri grein var Helga Arngrímsdóttir sem kastaði 4,13 m, önnur varð Ásdís Jónsdóttir sem kastaði 3,95 m og Hólmfríður kastaði 3,57 m.

Í karlaflokki var notuð 16 kg ketilbjalla og þar varð Gísli Héðinsson fyrstur með 5,46 m., annar varð Haraldur Ingólfsson sem kastaði 4,68 m og þriðji Árni Baldursson sem kastaði 4,50 m.

Síðan fór fram svokölluð bændaganga. þar sigraði Aðalbjörg Steindórsdóttir á Klúku með yfirburðum en hún gekk 70 ferðir með 12 kg í hvorri hendi. Næst henni var Helga Arngrímsdóttir með 24 ferðir. Karlaflokkur hélt á 24 kg í hvorri hendi og þar sigraði  Gísli aftur og gekk 16 ferðir, Finnur Ólafsson varð annar með 14,7 ferðir og  Árni Baldursson með 10,3 ferðir.

Stefnt er að því að hafa mót að ári liðnu á sama stað og í samskonar veðri.

 1

bottom

atburdir/2007/350-ketilbjollur3.jpg

atburdir/2007/350-ketilbjollur1.jpg

atburdir/2007/580-ketilbjollur2.jpg

Ljósm. Árni Þór Baldursson í Odda.