29/04/2024

Flökkusaga um hreindýr á Ströndum á sveimi

Heimasíðan www.hlad.is hefur m.a. að geyma spjallborð þar sem áhugamenn um skotveiði ræða gjarnan hugðarefni sín og varpa sögum sín á milli. Þar fjallar nýjasta flökkusagan um að hreindýr séu komin á Vestfjarðakjálkann. Það á að hafa sést til hreindýrs á mótum Hvannadals, sem gengur upp úr Selárdal við Steingrímsfjörð og Húsadals í Ófeigsfirði. Upphafsritari sagnarinnar kallar sig Hræfinn og fer mörgum orðum um vopnabúr bænda í Árneshreppi, en hann hefur mestar áhyggjur af því að bændur þar nyrðra muni noti heykvíslar og rekaviðardrumba til að aflífa dýrin. Einnig heldur hann því fram að yfirdýralækni sé fullkunnugt um landnám hreinanna. Hægt er að lesa flökkusögu Hræfinns með því að smella hér.

Líklegt má telja að þessi flökkusaga eigi uppruna sinn vegna fréttar af hreindýri og kálfi á Arnarvatnsheiði nýverið, en strandir.saudfjarsetur.is kaupir hana ekki dýrari en verðgildi hennar er. Hann hefur margan blekkt "heilagur sannleikurinn" sem ratað hefur á síður veraldarvefsins.

Meðfylgjandi ljósmynd af hreindýrskálfinum við Gjögur birtist hér á strandir.saudfjarsetur.is í desember 2004, í kjölfar mikillar umræðu á spjalltorgi vefjarins um hreindýr. Ljósmynd þessi er að sjálfsögðu einskonar flökkumynd.