22/12/2024

Katla kynnir starfsemi SRR á súpufundi fimmtudaginn 16. apríl

Katla Kjartansdóttir þjóðfræðingur mun kynna sjálfseignarstofnunina Símenntun –
Rannsóknir – Ráðgjöf sem starfrækt er við Háskóla Íslands og heyrir undir
menntavísindasvið sem áður var Kennaraháskóli Íslands. Katla er starfsmaður
verkefnisins á Hólmavík og hefur aðstöðu í Þróunarsetrinu á Hólmavík. Innan
stofnunarinnar fer fram margvísleg starfsemi á sviði uppeldis- og menntamála,
bæði rannsóknir og miðlun og starfar hún í nánu samstarfi við sérfræðinga á
menntavísindasviði sem og starfandi kennara, m.a. í tengslum við símenntun
þeirra og mat á skólastarfi.

Þetta verður tólfti súpufundurinn í vetur þar sem fjallað er um atvinnu- og
menningarmál á Ströndum. Súpufundirnir eru að venju á Café Riis á Hólmavík og
standa frá kl. 12:00 til 13:00.

Tilgangur með fundunum er að auka
vitneskju heimamanna um fjölbreytt atvinnulíf á Ströndum og ekki síður að efla
skilning á milli atvinnugreina með því að leiða saman frumatvinnugreinarnar og
nýsköpun í atvinnulífi.

Stefnt er að því að opna atvinnu- og
menningarmálasýningu í Félagsheimilinu á Hólmavík á vordögum sem verður uppi
allt sumarið og mun undirstrika öflugt og fjörugt atvinnu- og mannlíf á
Ströndum. Það eru allir hjartanlega velkomnir og hvattir til að mæta á þessa
fróðlegu og skemmtilegu súpufundi á Hólmavík á fimmtudögum.