22/12/2024

Karókíhátíð á næstu helgi

Karaokekeppni vinnustaða á Ströndum verður haldin í Bragganum á Hólmavík með pompi og prakt næsta laugardag, þann 13. október kl. 20:30. Í ár eru fulltrúar sjö vinnustaða sem keppa til sigurs. Barinn verður opinn á keppninni, aldurstakmark er 18 ár og aðgangseyrir 1.500 kr. Þá verður einnig glæsilegt steikarhlaðborð á Café Riis frá 18-20 og er síðasti skráningardagur í það á morgun, þriðjudag 9. október, í s. 897-9756 eða 896-4829. Hlaðborðið kostar kr. 3.500 á mann. Síðar um kvöldið verður stórdansleikur (flöskuball) í Bragganum með Kokkteil þar sem aldurstakmark er 18 ár og aðgangseyrir 2.500 kr. Í tilefni af þessari miklu karaokehátíð býður Café Riis sérstakt tilboð með öllum pakkanum; steikarhlaðborði, karaokekeppni og balli á aðeins kr. 5.900 á mann í stað kr. 7.500.

Æfingar eru þegar hafnar hjá karaoke-keppendum og verða þær í Bragganum út vikuna. Þeir keppendur sem strandir.saudfjarsetur.is hafa haft samband við vilja ekkert gefa uppi um þau lög sem verða flutt á laugardaginn og svara annað hvort með flissi eða gleðiglotti, enda er undirbúningur sem þessi óhemju skemmtilegur að sögn kunnugra. Líklegt er þó að lagalistinn verði birtur síðar í vikunni og strandir.saudfjarsetur.is verða að sjálfsögðu fyrst með fréttir af þeim efnum.