26/04/2024

Jörvagleði í Dölum – Sigvaldi Kaldalóns síðasta vetrardag

645-sol10
Næstu daga verður haldin heilmikil vetrarhátíð í Dölum undir yfirskriftinni Jörvagleði. Leiksýningar, uppákomur og skemmtanir eru á dagskránni sem hefst strax síðasta vetrardag og stendur fram á sunnudag. Á dagskránni í kvöld eru tónleikar Þorrakórsins á Staðarfelli og leiksýning hjá Kómedíuleikhúsinu á Sigvalda Kaldalóns í Tjarnarlundi. sem nánar er sagt frá hér að neðan. Dagskrá Jörvagleði 2013 má nálgast hér.

Höfundur verksins Sigvaldi Kaldalóns sem sýnt verður í kvöld kl. 20:30 í Tjarnarlundi og leikari er Elfar Logi Hannesson. Hljóðfæraleikari og leikkona er Dagný Arnalds.Miðaverð er 3.000 kr fyrir fullorðna og 1.500 kr fyrir börn á grunnskólaaldri. Boðið verður upp á súpu og kaffi. Athugið að enginn posi er á staðnum og því skynsamlegt að mæta með reiðufé.

Í leikritinu er rakin saga Sigvalda Kaldalóns þau 11 ár sem hann er læknir í Nauteyrarumdæmi. Á þessum árum samdi hann mörg af sínum helstu sönglögum.  Í leikritinu eru flutt mörg þeirra laga sem hann samdi á sínum Kaldalónsárum. Meðal þeirra eru; Við Kaldalón, Þú eina hjartans yndið mitt, Sofðu góði sofðu og Svanurinn minn syngur.

Í sýningunni verður brugðið upp atvikum frá þessum skapandi tíma í ævi Sigvalda. Samstarfi hans við Höllu skáldkonu, tónleikahaldi hans og Eggerts stórsöngvara bróður hans fyrir vestan, læknaferðum um Djúpið sem voru nú ekki alltaf hættulausar og síðast en ekki síst samskiptum hans við Djúpmenn.

Umrædd Halla skáldkona hét fullu nafni Hallfríður Guðrún Eyjólfsdóttir og var fædd í Gilsfjarðarmúla. Foreldrar hennar voru Jóhanna Halldórsdóttir og Eyjólfur Bjarnason. Árið 1886 réðst hún sem vinnukona að Laugabóli við Ísafjörð og varð þar síðar fjórtán barna húsmóðir þar.

Kómedíuleikhúsið er fyrsta atvinnuleikhús Vestfjarða og hefur sérhæft sig í að vinna úr sagnaarfi Vestfjarða. Meðal sýninga sem Kómedíuleikhúsið hefur sett á svið má nefna Muggur, Steinn Steinarr, Gísli Súrsson, Jón Sigurðsson – Strákur að vestan, Náströnd – Skáldið á Þröm og Listamaðurinn með barnshjartað. Sigvaldi Kaldalóns er 33. uppfærsla Kómedíuleikhússins.