29/03/2024

Jólasveinarnir koma!

StekkjarstaurJólasveinarnir koma einn af öðrum til byggða í kvöld og gera góðan stans hér á strandir.saudfjarsetur.is. Að þessu sinni verða birt myndbönd af komu hvers og eins þeirra, en samkomulag hefur náðst við alla jólasveinana um að þeir komi við í Kotbýli kuklarans í Bjarnarfirði. Þar hefur verið komið fyrir faldri myndavél sem birtir lifandi myndir af þeim í hverskyns bardúsi. Það er Strandagaldur sem hefur unnið Jóladagatalið í ár og hefur fengið til liðs við sig nokkra góða meðframleiðendur héðan og þaðan af landinu til að vef-varpa efninu. Íbúar utan háhraðatenginga þurfa ekki að missa af ævintýrum jólasveinanna en hægt verður að skoða Jóladagatalið í minni upplausn en hefðbundin myndbönd hafa verið til þessa á strandir.saudfjarsetur.is.

Það er Sigurður Atlason sem sér um kvikmyndatöku og klippingu ásamt samningagerð við jólasveinana og er sögumaður. Arnar S. Jónsson og Sigurður bregða sér í hlutverk sveinanna.

Hólmadrangur, Kaupfélag Steingrímsfjarðar, Sauðfjársetur á Ströndum, Edda útgáfa hf og SAH Afurðir ehf hafa lagt Strandagaldri lið við gerð efnisins og gerðu mögulegt að fjármagna gerð þess. Markaðsstofa Vestfjarða kemur einnig myndarlega að vinnunni með aðstoð við markaðssetningu efnisins á landsvísu.

Jóladagatal Strandagaldurs er að hluta byggt á Jólasveinakvæði Jóhannesar úr Kötlum og hægt verður að fylgjast með hverjum og einum af jólasveinunum daglega fram til 7. janúar.

Til að skoða Jóladagatalið er smellt á myndina af af jólasveininum hægra megin á forsíðu vefjarins. Það er Stekkjarstaur sem ríður á vaðið að venju, en gert er ráð fyrir að hann birtist á miðnætti.