26/04/2024

,,Eins dauði er annars brauð”

Aðsend grein: Hilmar Vilberg Gylfason
Siðleysi núverandi samgönguráðherra er algert. Í kjördæmi Sturlu eru margir hættulegir vegakaflar þar sem slys hafa verið tíð síðustu árin. Dauðaslys hafa sem betur fer ekki verið jafn mörg og á Suðurlandsvegi. En, það þarf ekki nema einn vegkantur að gefa sig undan fullsetinni rútu til að það geti breyst. Hvernig væri að samgönguráðherra hefði þá stefnu að ,,byrgja brunninn áður en barnið dettur ofan í hann” í stað þess að nýta sér sviplegan dauða ungs fólks til pólitísks frama.

Það er hreint með ólíkindum að sjá framgöngu ráðherra eftir hið hörmulega slys sem varð á Suðurlandsvegi fyrir stuttu síðan. Allt í einu kemur samgönguráðherra eins og þruma úr heiðskýru lofti og ætlar að tvöfalda Þjóðveginn allt frá Hvalfjarðargöngum að Selfossi. Það þurftu að tapast yfir 50 mannslíf á leiðinni til að koma vitinu fyrir ráðherrann. Meira að segja tryggingafélögin voru búin að fá nóg af aðgerðaleysi samgönguráðherra og eitt þeirra bauðst til að sjá um tvöföldun Suðurlandsvegar, þeirri hugmynd var fálega tekið í ráðuneyti Sturlu.

Ekki fyrir löngu síðan þurftu sveitarstjórnarmenn á Suðurlandi að beita öllu afli til að fá í gegn að mislæg gatnamót væru byggð við Þrengslavegamót og öryggi vegfarenda þannig tryggt sem þar fara um, ráðherra stóð hreinlega í vegi fyrir þeim úrbótum lengi framan af. Það má með sanni segja að Sturla sé boðberi umferðaröryggis. En batnandi mönnum er best að lifa. Ráðherra hefur séð sig um hönd eða er ekki svo? Það kostaði að vísu mannslíf og það fleiri en eitt.

Spyrja mætti Sturlu hvort vegurinn frá Brú til Hólmavíkur verður byggður upp þegar yfir 50 hafa látist í umferðarslysum þar? Þessi kafli af þjóðvegakerfinu er nú einu sinni í hans kjördæmi. Verður það vinnuregla í samgönguráðuneytinu hér eftir að þegar yfir 50 hafa látist á tilteknum vegum sé tími til úrbóta? Mundu það Sturla að Arnkötludalur leysir ekki vanda þeirra sem ferðast á milli Norðurlands og Vestfjarða. Þeir þurfa ennþá að fara um hálfónýta þjóðvegi á Norðurlandi og síðan tekur ekki betra við þegar aka þarf hálfónýta og alónýta vegi á Vestfjarðakjálkanum, þínu eigin kjördæmi. Það má með sanni segja að hæstvirtum samgönguráðherra, Sturlu Böðvarssyni, sé og hafi verið umhugað um umferðaröryggi landsmanna.

Hilmar Vilberg Gylfason
Höfundur er laganemi og fyrrverandi atvinnubílstjóri