14/12/2024

Jólakort af Ströndum komið út

Jólakort af Ströndum er komið út sem skartar glæsilegri ljósmynd af Kotbýli kuklarans í vetrarbúningi. Á bakhlið þess er frásögn um hina fornu jólasveina á Ströndum. Eins og mörgum er kunnugt báru jólasveinar á Ströndum ekki sömu nöfn og þeir sveinar sem eru kunnugastir um þessar mundir og oftast nefndir til sögunnar. Þeir voru þó þrettán eins og víðast annars staðar á landinu, en höfðu það umfram hálfbræður sína að vera meira upp á kvenhöndina. Þeir voru semsagt kvæntir páskadísunum, sem sagt er að hafi komið til híbýla manna um páskaleytið.

Þessi eru nöfn jólasveinanna á Ströndum:

Tífall, Tútur,
Baggi, Lútur,
Rauður, Redda,
Steingrímur, Sledda,
Lækjaræsir, Bjálminn sjálfur,
Bjálmans barnið,
Litlipungur og Örvadrumbur.

Jólakortin er hægt að nálgast á Galdrasafninu á Hólmavík og einnig í vefbúð sýningarinnar. Verð á jólakortunum er aðeins 120 krónur og umslag fylgir með.