10/12/2024

Jólaböll og messur

Fréttaritið strandir.saudfjarsetur.is hefur haft spurnir af jólaböllum í félagsheimilunum á Hólmavík og Drangsnesi á annan dag jóla og hefst jólaballið á Hólmavík kl. 14:00. Þá höfum við haft spurnir af aftansöng jóla í Hólmavíkurkirkju á aðfangadag kl. 18:00 og borist hefur auglýsing um hátíðarguðsþjónustu í Kollafjarðarneskirkju á jóladag kl. 16:00.

Diskóteki sem auglýst hafði verið á Café Riis á Hólmavík eftir miðnætti á jóladag hefur hins vegar verið aflýst, enda kom í ljós að slíkt samkomuhald samrýmdist ekki landslögum sem banna slíkar skemmtanir á bilinu frá miðnætti til klukkan 6 um morguninn nóttina eftir jóladag.

Þá viljum við að lokum minna lesendur okkar á skötuveislu í Samkomuhúsinu Baldri á Drangsnesi í kvöld og skata er einnig á matseðlinum í Brúarskála í dag.