16/06/2024

Íþróttamiðstöðin – fréttaskýring

Laugardaginn 15. janúar verður Íþróttamiðstöðin Hólmavík tekin formlega í notkun með miklum hátíðahöldum. Þriggja manna nefnd hefur skipulagt hátíðina og væntanlega verður mikið um dýrðir. Íþróttamiðstöðin er reist af miklum stórhug, langþráður draumur um sundlaug á Hólmavík rættist með byggingu hennar og stórt íþróttahús opnar ýmsa möguleika á keppnishaldi og íþróttaiðkun íbúa á Ströndum. Í þessari fréttaskýringu verður Íþróttamiðstöðin kynnt og stikað á stóru í sögu byggingarinnar, auk þess sem rædd er þýðing hennar og kostnaður við framkvæmdina og rekstur í framtíðinni.

bottom

Íþróttasalurinn – ljósm. Jón Jónsson

Byggingarframkvæmdirnar

Íþróttamiðstöðin samanstendur af 25 m útisundlaug með tveimur heitum pottum og buslulaug, þjónustuhúsi með afgreiðslu, búningsklefum og sturtuklefum með 5 sturtum hvor, salernum fyrir fatlaða og ófatlaða, gufubaði og litlum líkamsræktarsal, íþróttasal og geymsluherbergi fyrir áhöld. Einnig er í hluta hússins tækjabúnaður fyrir hitun á vatninu í sundlaugina og hreinsun á því. Í litlu húsi sem reist var aftan við Íþróttamiðstöðina er varakyndistöð, en laugin og húsið er kynnt með ótryggri raforku frá Orkubúi Vestfjarða til að minnka orkukostnað. Arkitektar við bygginguna var Arkís ehf.

Framkvæmdir hófust 2002 og fyrsta skóflustungan að byggingunni var tekin 25. júlí 2002. Það gerðu vinkonurnar Sara Benediktsdóttir og Árný Huld Haraldsdóttir sem báðar voru þá á 17. ári, en þær höfðu öll sín grunnskólaár á Hólmavík safnað peningum til sundlaugarbyggingar með hlutaveltum og fleiri uppátækjum.

Árný og Sara, Haraldur oddviti og Ásdís sveitarstjóri – ljósm. Sigurður Marinó Þorvaldsson

Fyrsti áfangi verksins var boðinn út sumarið 2002 í lokuðu útboði þar sem fjögur fyrirtæki voru valin til að taka þátt. Áætlun hljóðaði upp á tæplega 77 milljónir, en lægsta tilboðið var töluvert hærra eða rúmlega 95 milljónir. Kom það í ljós þegar tilboð voru opnuð í júní. Hreppsnefnd ræddi það sín á milli að hafna öllum tilboðum og bjóða verkið út að nýju í opnu útboði, en féll frá því þar sem framkvæmdum myndi þá seinka um að minnsta kosti ár, en á þessum tíma var áætlað að ljúka vinnunni við þjónustuhúsið og laugina og taka hana í notkun á árinu 2003. Þess í stað var tekin sú stefna að ræða við hönnuði miðstöðvarinnar og fleiri aðila um leiðir til að lækka kostnað og semja við verktakann sem var Trésmiðja Guðmundar Friðrikssonar í Grundarfirði um nokkra kostnaðarliði, að því er fram kemur í viðtali bb.is við Harald V.A. Jónsson oddvita í viðtali þann 10. júlí 2002. Fyrsta áfanga átti að vera lokið fyrir 1. júní 2003, en það dróst töluvert.

Annar áfangi byggingarinnar var síðan boðinn út seint á árinu 2003 og aftur var viðhaft lokað útboð. Kostnaðaráætlun við annan áfanga sem hafði á þessum tíma runnið saman við þriðja áfanga vegna tafa á verkefninu var rúmar 79 milljónir og bárust þrjú tilboð. Lægst bauð Ágúst og Flosi ehf á Ísafirði eða 67,4 milljónir en eftir skoðun á einstökum atriðum í tilboðunum og viðræður við bjóðendur, ákvað hreppsnefnd Hólmavíkurhrepps að ganga til samninga við Trésmiðju Guðmundar Friðrikssonar í Grundarfirði. Vinnu við sundlaug og þjónustuhús átti að vera lokið í 15. apríl 2004, en það dróst um nokkrar vikur og einnig urðu tafir vegna byggingar á kyndistöð fyrir varaaflið, en ekki var gert ráð fyrir henni í upphafi. Aðalbyggingin rúmaði einfaldlega ekki allan nauðsynlegan búnað þegar til kom.

Steypuvinna í gangi – ljósmynd: bb.is

Íþróttamiðstöðin tekin í notkun

Sundlaugin var síðan opnuð síðastliðið sumar, þann 17. júlí, við góðar undirtektir. Langflestir komu fyrsta mánuðinn á meðan ferðaþjónustan var í fullum gangi eða um það bil 150 manns á dag. Mest komu 300 manns á einum degi í laugina. Heimsóknir í sundlaugina voru alls rétt tæplega 6 þúsund fyrsta starfsárið, frá 17. júlí. Þá er skólasundið ekki talið með, en skólabörnum á Hólmavík var kennt sund í lauginni nærri allt haustmisserið. Góðir möguleikar hljóta að vera á að fjölga heimsóknum ferðamanna verulega með markvissri kynningu og ferðaþjónustuaðilar á Ströndum sem spurðir voru álits telja ekki óvarlegt að áætla að gestafjöldinn geti farið í 15 þúsund á árinu 2005 miðað við óbreyttan opnunartíma yfir sumarið. Þegar hefur verið gerð lítil vefsíða um sundlaugina undir vef Upplýsingamiðstöðvarinnar.

1

Ásdís sveitarstjóri við laugina rétt fyrir opnun – ljósm. Kristín Einarsdóttir

Opnunartíminn hefur breyst nokkrum sinnum og verið gerðar tilraunir með hann. Fram eftir haustinu var til dæmis opið á morgnanna frá 7-9, en því var síðan hætt og nú er opið frá 16-21 á virkum dögum og 12-17 um helgar. Í dag er líklegast að það verði opið á þeim tíma það sem eftir er vetrar. Einnig er nú reiknað með að opið verði næsta sumar 7-21 á virkum dögum og 10-21 um helgar, en það hefur ekki verið tekið formlega fyrir á hreppsnefndarfundi. Gufubaðið bættist við á haustmánuðum og eins var keyptur dúkur til að breiða yfir laugina yfir nóttina og er hann dreginn af og á með spili og vindu. Tækjasalurinn hefur hins vegar ekki enn verið tekinn í notkun, en ekki er alveg ljóst hvers vegna því nokkuð af tækjum er komið þar.

Íþróttahúsið var síðan tekið í notkun þann 7. desember og fluttist þá íþróttakennsla Grunnskólans í húsið úr félagsheimilinu, ásamt tímum Ungmennafélagsins Geislans og íþróttatímum sem leigðir eru af einstaklingum og hópum á Ströndum. Búið er að setja upp mörk og körfur við enda vallarins, en fyrirhugað er að setja upp körfur þvert á völlinn líka fyrir yngri hópana. Parket er á gólfinu og segjast menn mjög ánægðir með fjöðrunina. Verulegur munur sé á því og dúknum sem er á gólfi Félagsheimilisins. Gluggi er á veggnum frá þjónustuhúsinu inn í íþróttasalinn, en líklegt er þó að finna þurfi betri lausn á aðstöðu fyrir áhorfendur að kappleikjum. Kom það glöggt í ljós á fyrsta mótinu sem haldið var í húsinu, Gamlársdagsmóti í innanhúsfótbolta. Það fór fram að morgni gamlársdags og Flosi Helgason stóð fyrir uppátækinu og gaf bikar í tilefni þess.

Gamlársdagsmótið – ljósm. Jón Jónsson

Nafnasamkeppni var haldin síðastliðið haust og bárust 15 tillögur til hreppsnefndar Hólmavíkurhrepps. Hún ákvað svo á fundi sínum þann 16. nóvember að húsið skyldi heita Íþróttamiðstöðin Hólmavík. Verða verðlaun í samkeppninni væntanlega afhent á opnunarhátíðinni um næstu helgi.

Þjónusta sem skiptir máli

Það virðist samdóma álit Hólmvíkinga að það sé grundvallarbreyting að fá sundlaug í þorpið. Langþráður draumur sem lesa má um af og til í kosningaloforðalistum og fundargerðum félaga og hreppsnefnda frá því fyrir miðja síðustu öld. Valdimar Guðmundsson hreppsnefndarmaður orðar það þannig í svari við tölvubréfi: "Íþróttamiðstöðin ætti að breyta miklu fyrir íbúana, bæði andlega sem líkamlega. Þrek og heilsa ætti að verða betri sem skilar sér í bættri lífshamingju."

Í tækjasalnum Flosabóli – ljósm. Jón Jónsson

Fyrsti íþróttahópurinn – ljósm. Sigurður Marinó Þorvaldsson

Tilkoma sundlaugarinnar á líka efalaust eftir að hafa töluverð jákvæð áhrif á ferðaþjónustu á Hólmavík. Rúmlega helmingur gesta sem ferðast um Vestfirði fara í sund á ferðalögum sínum og búast má við að ferðafólk stoppi lengur í bænum og nágrenni hans í framtíðinni, með tilheyrandi margfeldisáhrifum. Það er mikilvægt í þessu sambandi að tjaldsvæðið við sundlaugina var stækkað töluvert síðasta sumar og enn frekari umbætur eru fyrirhugaðar fyrir næsta sumar.

holmavik/350-sundlaug.jpg

Ferðamenn í sundi sumarið 2004 – ljósm. Jón Jónsson

Stofn- og rekstrarkostnaður

Kostnaður við framkvæmdina við Íþróttamiðstöðina er orðinn tæpar 213 milljónir og ekki eru alveg öll kurl komin til grafar varðandi kostnað. Nokkur smáverkefni eru eftir, en þau eru flest minniháttar, t.d. er hugmyndin að loka líkamsræktarsalinn sem fengið hefur nafnið Flosaból af og eftir er að kaupa eitthvað af tækjum og gera smávægilegar lagfæringar. Sala á hlut sveitarfélagsins í Orkubúi Vestfjarða til ríkins gerði framkvæmdina mögulega, en einnig styrkir Jöfnunarsjóður sveitarfélaga venjulega íþróttamannvirki og sundlaugabyggingar. Frá Jöfnunarsjóði komu tæplega 27 milljónir til þessarar framkvæmdar. Upphafleg fjárhagsáætlun við Íþróttamiðstöðina var um 147 milljónir, en síðar var gert ráð fyrir að kostnaður yrði 170 milljónir.

1

Í búnings og sturtuklefum – ljósm. Jón Jónsson

Eins og menn muna hafa verið töluverðar umræður um rekstrarkostnað við Íþróttamiðstöðina. Nú hefur miðstöðin verið opin frá því í júlí og því er aðeins farin að koma reynsla á reksturinn og fást upplýsingar um rekstrarkostnað. Samkvæmt upplýsingum frá Ásdísi Leifsdóttir sveitarstjóra er munurinn á rekstrargjöldum og tekjum töluverður, rekstrargjöld eru um 11 milljónir og tapið á rekstrinum um það bil 9,6 milljónir frá opnun til áramóta. Þar af er kostnaður við rafmagn og hita um 2 millj. fram að desember. Miklu munaði um að fá yfirbreiðsluna yfir laugina hvað varðar kostnað og einnig var buslulauginni lokað snemma í haust og nú um áramót er öðrum heita pottinum einnig lokað í sparnaðarskyni. Tekjurnar af rekstrinum eru töluvert meiri yfir sumartímann en yfir veturinn, frá opnun til 1. október voru þær rétt um 1,2 milljónir, en aðeins um það bil 200 þúsund síðustu þrjá mánuði ársins.

Framtíðin

Það er ljóst að reksturinn á Íþróttamiðstöðinni og stofnkostnaðurinn verður sveitarfélaginu erfiður, en enn á eftir að koma í ljós til hvaða ráða hreppsnefnd grípur í því samhengi. Fjárhagsáætlun fyrir árið 2005 liggur ekki fyrir enn. Spurður um hvort reksturinn verði viðráðanlegur fyrir sveitarfélagið svarar Valdemar Guðmundsson hreppsnefndarmaður því einfaldlega neitandi og bætir við, ekki eins og staðan er í dag. Hann telur að ef sundlaugin eigi að koma að fullum notum fyrir íbúana þurfi að koma létt þak yfir hana á vetrum, t.d. dúkur sem væri hægt að fjarlægja á sumrin. Þessa hugmynd og margar aðrar þurfa hreppsnefndarmenn á Hólmavík væntanlega að taka til skoðunar á næstunni.

Í tækjarýminu í kjallaranum – ljósm. Jón Jónsson