10/09/2024

Ískönnun á Bölunum

Samkvæmt upplýsingum Landhelgisgæslunnar hefur meginísröndin úti fyrir Norðurlandi færst norðar frá því um helgina en ísspangir og ísdreifar eru víða. Mikið íshrafl hefur rekið upp að landi í Trékyllisvík undanfarna tvo daga og eru stórir jakar komnir alveg upp í fjöru. Í óopinberum ískönnunarleiðangri sem var farinn í gærmorgun úr Steingrímsfirði norður í Kolbeinsvík er skemmst frá því að segja að nánast enginn hafís er kominn að landi á leiðinni úr Bjarnarfirði norður í Kolbeinsvík.

Aðeins örfáir smájakar eru á fjörum og mjög lítið af jökum sást á reki inn flóann, en frekar lélegt skyggni var vegna éljagangs eins og myndirnar bera með sér sem tíðindamaður strandir.saudfjarsetur.is, Guðbrandur Sverrisson tók, en honum fundust hafísjakarnir bæði litlir og ljótir og tók því myndir af allt öðru.

Klettarnir fyrir framan Svansbúð í Kaldbaksvík voru ansi klammaðir. Enginn var ísbjörninn en fár og smáir jakar hér og þar.

Bærinn í Kaldbak var fluttur frá Kúvíkum á sínum tíma. Kaldbakshorn í baksýn.

Ljósmyndir: Guðbrandur Sverrisson