13/09/2024

Íbúar við Steingrímsfjörð eru vakandi yfir hvalakomum

Íbúar við Steingrímsfjörð hafa verið duglegir að tilkynna um hvalakomur á Steingrímsfjörð en Strandagaldur stendur fyrir skráningu á hvölum á firðinum. Tíu tilkynningar bárust í september mánuði þar sem tilkynnt var um tuttugu hvali, hér og þar á firðinum. Það sem af er október þá hefur verið tilkynnt um sjö hvali, tvo við höfnina á Hólmavík og fimm rétt utan við Drangsnes. Unnið hefur verið út frá þeirri hugmynd að  byggja upp afþreyingu tengdri hvalaskoðun af landi við Steingrímsfjörð á næstu árum, og að vörumerkið verði WOW! Þar er vísað til skammstöfunarinnar á mögulegu heiti verkefnisins, Whale on Wheels, og þeirrar upphrópunar sem náttúruskoðendur temja sér þegar eitthvað stórkostlegt er í návígi.

Unnið er að smíði sérstakrar kynningarsíðu um verkefnið þar sem tengt verður í eina heild öll ferðaþjónusta á svæðinu og allir möguleikar til náttúruskoðunar á svæðinu kynntir til sögunnar. Vörutákn verkefnisins verður að öllum líkindum enska upphrópunin WOW! í bláum lit. Hægt er að skoða síðuna á þessari slóð.

Til að tilkynna um hvalakomur á Steingrímsfjörð er hægt að smella á tengilinn Er hvalur á firðinum? neðst í efstu tenglaröðinni hér á vinstri hönd á strandir.saudfjarsetur.is. Þá opnast sérstök síða þar sem skráningin fer fram sem birtist sjálfkrafa öllum fyrir sjónum skömmu síðar.