19/04/2024

Í siglingu með Sundhana

Ferðaþjónusta Sundhana, hjónin Valgerður Magnúsdóttir og Ásbjörn Magnússon, bauð öllum eldri borgurum Kaldrananeshrepps í siglingu út í Grímsey á þriðjudag. Ferðin var í alla staði hin ánægjulegasta. Ásbjörn hefur gert sérstaklega skemmtilega aðkomu í eynni, þannig að jafnvel eldra fólk á auðvelt með að komast frá borði. Er landgangan nú tiltölulega örugg og er eins og gengið sé í bergið og opnast þar inn á pall sem hann hefur byggt þar. Er þar nú komin ágætasta aðstaða til veitinga.

Eftir góða stund í eynni buðu þau Ásbjörn og Valgerður gestum upp á kaffi og ástarpunga og gerði það mikla lukku. Og þá ekki síður koniakstárið sem fylgdi með. Það var glaður og ánægður hópur sem steig á land við Drangsnesbryggju eftir sérstaklega ánægjulegt síðdegi í Grímsey.

Ljósm. Jenný Jensdóttir