13/10/2024

Hver verður Strandamaður ársins 2012

645-sol13
Enn á ný stendur vefurinn strandir.saudfjarsetur.is fyrir þeim skemmtilega samkvæmisleik að velja Strandamann ársins. Nú verður Strandamaður ársins valinn í 9. skipti, en kosning meðal lesenda vefjarins hefur verið árviss uppákoma. Um síðustu áramót var Eva Sigurbjörnsdóttir í Djúpavík valin Strandamaður ársins 2011 og upphefð hennar varð svo enn meiri nú á nýársdag, þegar hún fékk hina íslensku fálkaorðu afhenta á Bessastöðum fyrir vel unnin störf í þágu ferðaþjónustunnar. Í fyrri umferð geta menn sent inn tilnefningar hér á vefnum og rennur frestur til þess út þriðjudaginn 8. janúar.

Tilgangurinn með valinu er að vekja fólk til umhugsunar um allt það sem vel er gert í samfélaginu og þá sem standa sig með prýði. Allir Strandamenn nær og fjær eru hvattir til að taka þátt, en í síðari umferð verður valið á milli þeirra þriggja sem flestar tilnefningar fá.

Strandamaður ársins hefur verið valinn átta sinnum á vefnum strandir.saudfjarsetur.is, en árið 2004 var valið unnið í samvinnu við fréttablaðið Fréttirnar til fólksins og árin 2008 og 2009 í samvinnu við Gagnveg. Kristín S. Einarsdóttir átti upphaflega hugmyndina að þessum skemmilega leik.

Þeir sem hafa orðið þess heiðurs aðnjótandi að vera valdir Strandamenn ársins af samferðamönnum sínum eru:

2004 – Sverrir Guðbrandsson eldri á Hólmavík
2005 – Guðbrandur Einarsson frá Broddanesi
2006 – Sandra Dögg Guðmundsdóttir á Drangsnesi
2007 – Ásbjörn Magnússon og Valgerður Magnúsdóttir á Drangsnesi
2008 – Ingibjörg Sigvaldadóttir frá Svanshóli
2009 – Sigurður Atlason á Hólmavík
2010 – Arinbjörn Bernharðsson frá Norðurfirði
2011 – Eva Sigurbjörnsdóttir í Djúpavík