23/12/2024

Hugað að haustferð Fjallahjólaklúbbsins Selkollu

Fjallahjólaklúbburinn Selkolla á Ströndum hóf starfsemi síðasta haust og þá var farin fyrsta ferð klúbbsins. Nú er verið að huga að árlegri haustferð hjólaklúbbsins og ákveðið hefur verið að hún verði laugardaginn 9. september, ef veður leyfir. Allir þeir sem hafa áhuga á að taka þátt er það velkomið en lagt verður af stað árla morguns frá Selkollusteini á Bjarnarfjarðarhálsi og hjólað sem leið liggur yfir Trékyllisheiði eftir slóða sem þar liggur. Hjólað verður síðan ofanverðu við Reykjarfjörð og þrætt hjá Glyssu og komið niður á hálsinn milli Ingólfsfjarðar og Trékyllisvíkur og þaðan í sundlaugina í Krossnesi. Frá Krossnesi verður síðan hægt að fá flutning með hjól og annað hafurtask til baka um kvöldið.

Að sögn Sigurðar Atlasonar forsprakka Fjallahjólaklúbbsins Selkollu er um langa dagleið að ræða en allir sæmilega hraustir einstaklingar ættu að ráða við þetta því ekki er um kapphjólreiðar að ræða, heldur fyrst og fremst að eiga ánægjulegan dag í fögru umhverfi, dást að haustlitunum og anda að sér eins miklu fersku lofti og hver getur í sig látið á einum degi. Eins og fyrr segir þá er öllum velkomið að taka þátt og skráningar fara fram á sérstöku þræði hér á Strandamannaspjallinu á strandir.saudfjarsetur.is, undir Fjallahjólaklúbburinn Selkolla.

Hér að neðan gefur að líta kort af fyrirhugaðri leið.