22/12/2024

Hrútaþuklið undirbúið

Undirbúningur er nú hafinn af fullum krafti hjá Sauðfjársetri á Ströndum fyrir árlegt Meistaramót í hrútadómum sem haldið er á Sauðfjársetrinu í Sævangi eftir rúma viku, sunnudaginn 21. ágúst. Sauðfjársetur á Ströndum stendur fyrir þessari stórmerku keppni í hrútaþukli, þar sem bæði er keppt í flokki vanra og óvanra hrútaþuklara. Yfirdómari á mótinu er að venju Jón Viðar Jónmundsson. Vegleg verðlaun eru í boði. Einnig verður farið í leiki á vellinum, og á boðstólum verður kaffihlaðborð og krafmikil kjötsúpa að hætti Strandamanna á góðu verði. Veðrið verður líka frábært að venju, segir í fréttatilkynningu Sauðfjársetursins. Ástæða er að hvetja Strandamenn til að fjölmenna á mannfagnaðinn. Aðgangur að hátíðinni sjálfri er ókeypis, en aðgangur að sögusýningu Sauðfjársetursins er kr. 500.- fyrir 13 ára og eldri.