16/06/2024

Hólmvíski fálkinn fær frelsi

Sævar benediktsson með fálkann áður en hann var sendur suður.Margir Hólmvíkingar muna sjálfsagt eftir því þegar Sævar Benediktsson á Hólmavík bjargaði fálka sem gætti ekki að sér og flaug harkalega á fiskvinnsluhúsið hans s.l. haust þar sem hann var að eltast við smáfugla. Þar sem fálkar eru alfriðaðir kom Sævar skepnunni í fjölskyldu- og húsdýragarðinn í Reykjavík til aðhlynningar.

Fulltrúar Náttúrufræðistofnunar Íslands, Fjölskyldu- og húsdýragarðsins og Fálkans hf., fóru í morgun upp á Úlfarsfell og slepptu þar fálkanum. Fálkinn fannst illa á sig kominn á Hólmavík í september sl. Hann er á öðru ári og vó 1,3 kg við komuna í garðinn. Við nánari rannsókn kom í ljós að hann var frekar illa særður og sá auk þess ekki neitt með öðru auga. Hann braggaðist hins vegar vel og var frelsinu feginn þegar honum var sleppt í dag.

Þá stendur bara eftir spurningin hvort hann rati aftur heim, norður á Strandir.

Fiskvinnslan Særoði á Hólmavík

Fálkinn misreiknaði flugið í eltingarleik utan við Fiskvinnsluna Særoða á Hólmavík.

Sævar Benediktsson stillir sér upp með fálkann á hendinni.