10/09/2024

Hlé gerð á smölun vegna komu biskups

Biskup Íslands Herra Karl Sigurbjörnsson og frú, ásamt prófasti, sóknarpresti og mökum þeirra komu norður í Árneshrepp í blíðskaparveðri í dag. Föruneytið heimsótti Finnbogastaðaskóla og færði biskup þar börnunum kross að gjöf og átti spjall við nemendur og starfsfólk. Að því loknu hélt biskupinn, prófasturinn og sóknarpresturinn fund með sóknarnefnd Árneshrepps. Klukkan 16:00 var haldin hátíðarmessa í Árneskirkju og þjónuðu séra Sigríður Óladóttir sóknarprestur, séra Guðni Þór Ólafsson prófastur Húnavatnsprófastsdæmis ásamt biskup fyrir altari.

Biskupinn minntist á að hafa komið norður í Árneshrepp árið 1974 í mjög góðu veðri líkt og var í dag ásamt því að hann minntist þess að fjórtán ár eru síðan Árneskirkja var vígð. Boðið var upp á veitingar að messu lokinni.