29/04/2024

Helstu verkefni lögreglunnar um jólin

Í fréttatilkynningu lögreglunnar á Vestfjörðum um helstu verkefni um jólin kemur fram að frekar friðsamt hefur um jólahátíðarnar hjá lögreglumönnum. Talsvert eftirlit hefur verið með umferð og þá sérstaklega fylgst með ástandi ökumanna í tengslum við vímuáhrif við akstur. Fjórir ökumenn voru handteknir í tengslum við þetta eftirlit þar sem grunur lék á að þeir væru undir áhrifum fíkniefna. Þessum aðilum var öllum gert að hætta akstri og hljóta mál þeirra venjubundna meðferð eftir að niðurstöður koma úr blóðsýnum sem úr þeim voru tekin. Ef í ljós kemur að fíkniefni séu í blóði þeirra má gera ráð fyrir að við liggi svipting ökuréttar og sektir.

Átta ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur. Sá sem hraðast ók var mældur á 120 km hraða í Kollafirði á Ströndum þar sem hámarkshraði er 90 km. Fjögur umferðaróhöpp urðu í umdæminu og voru þrjú þeirra með þeim hætti að bifreið var ekið á aurskriður eða grjót sem höfðu fallið á vegi í nágrenni við þéttbýlisstaði á norðanverðum Vestfjörðum. Engin slys urðu á fólki í þessum óhöppum.

Um kl. 17:55 á miðvikudaginn kom í ljós að bifreið hafið verið tekin ófrjálsri hendi í Súðavík. Bifreiðin fannst síðan við flugvöllinn á Ísafirði og beindist grunur að ungum mönnum sem höfðu farið til Reykjavíkur með flugi. Þeir voru handteknir við komuna þangað og viðurkenndu við yfirheyrslur nytjastuld á bifreiðinni og réttindaleysi við akstur.