22/12/2024

Helstu verkefni lögreglu í vikunni

Í fréttatilkynningu um helstu verkefni lögreglunnar á Vestfjörðum í síðustu viku, 7. til 13. janúar, kemur fram að í vikunni var tilkynnt um fjögur umferðaróhöpp á Vestfjörðum. Á mánudeginum valt tengivagn sem dreginn var af flutningabifreið á veginum um Hrútafjörð. Á þriðjudaginn valt fólksbifreið út af Vestfjarðarvegi, skammt frá bænum Tröð í Önundarfirði. Bifreiðin náðist upp á veg lítið skemmd. Þá fór bifreið út af veginum um Örlygshöfn við Patreksfjörð á miðvikudeginum. Loks hafnaði bifreið á skilti innanbæjar á Ísafirði, er hún rann til í hálku. Engin slys urðu á fólki í þessum óhöppum og litlar skemmdir urðu á ökutækjum.

Í vikunni voru 14 ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur, flestir innan þéttbýlis á Ísafirði. Á fimmtudeginum voru tveir ökumenn stöðvaðir á Ísafirði vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna.
Í vikunni hafa lögreglumenn á Hólmavík haldið áfram sérstöku eftirliti með skoðun ökutækja og var eigendum 10 ökutækja gefinn sjö daga frestur til að færa þær til skoðunar. Þá voru skráningarnúmer fjarlægð af 5 ökutækjum vegna vanrækslu á skoðun.

Á föstudaginn var bifreið stöðvuð á Skutulsfjarðarbraut á Ísafirði en hún var án skráningarnúmera. Í ljós kom að númer hennar höfðu verið innlögð. Ökumanninum var gert að hætta akstri og varð hann að fjarlægja bifreiðina af vettvangi með öðrum hætti.