22/12/2024

Hátíðahöld 2006 – upplýsingar óskast

Starfsemi Upplýsingamiðstöðvar ferðamála á Hólmavík leggst síður en svo í dvala yfir veturinn, þó starfstöðin í Félagsheimilinu á Hólmavík sé lokuð. Fyrirspurnum í síma og tölvupósti er svarað allt árið um kring. Nú er að hefjast sá tími þar sem gott er að hafa upplýsingar um margvíslega atburði, hátíðahöld og uppákomur á næsta ári. Frá Upplýsingamiðstöðinni rata þær á margvíslega atburðavefi og í ýmsa bæklinga, ferðahandbækur og upplýsingarit sem gefin eru út í vetur. Sérstaklega er mikilvægt að stærstu hátíðir séu ákveðnar og auglýstar með góðum fyrirvara. Sveitarfélög og ferðaþjónar á Ströndum sem skipuleggja atburði eru hvött til að ákveða tímasetningar sem fyrst og láta Upplýsingamiðstöðina vita, netfangið er info@holmavik.is.


Bæklingarekki á vegum Upplýsingamiðstöðvarinnar sem staðsettur er í söluskálanum á Hólmavík og settur var upp í ágústlok hefur komið vel út og í hann sækja margir gestir Stranda kynningarefni. Þar eru bæklingar af svæðinu og valin kynningarrit á landsvísu aðgengileg. Þeir ferðaþjónar á Ströndum sem brúka kynningarbæklinga eru hvattir til að hafa samband við Upplýsingamiðstöðina eða senda bæklinga ef þeir hafa áhuga á að þeir séu þar uppi við.