23/12/2024

Hamingjubolir og barmmerki

Í dag gekk Menningarmála-nefnd Hólmavíkurhrepps frá pöntun á Hamingjubolum og barmmerkjum vegna Hamingjudaga á Hólmavík 30. júní til 3. júlí. Bolirnir verða seldir á hóflegu verði á hátíðinni, en einnig er stefnt að forsölu á Hólmavík. Verður fyrirkomuleg nánar auglýst þegar bolirnir eru komnir á staðinn. Bjarni Ómar Haraldsson framkvæmdastjóri Hamingjudaga hannaði merki á bolina og verður merkið prentað á hvíta boli í fjórum mismundandi prentlitum sem eru þeir sömu og hverfalitirnir.

Ýmislegt annað sem hátíðina varðar var staðfest á fundi í dag, svo sem að leiktæki frá Hopp og skopp verða á staðnum og einnig hafa verið undirritaðir samningar við alla listamenn sem koma lengra að. Þá hefur verið gengið frá atriðum fjölda tónlistamanna af Ströndum og ljóst er að sex aðilar verða með sýningar í Grunnskólanum, en þar verður til sýnis myndlist, handverk og ljósmyndir.

Stærri útgáfu af Hamingjumerkinu er að finna hér fyrir neðan og er tilvalið að nota það sem innblástur í skreytingar.