22/12/2024

Háhraðanet um allar sveitir næsta haust?

TröllinSíminn átti lægsta tilboð í útboði Fjarskiptasjóðs um uppbyggingu háhraðanets í sveitum, en tilboð voru opnuð í húsnæði Ríkiskaupa fyrr í dag og má finna fundargerð opnunarfundar undir þessum tengli. Tilboð Símans nam 379 milljónum króna, en Síminn átti aðild að þremur tilboðum á bilinu 379 milljónir króna til 5 milljarða. Lægsta tilboð Símans gerir ráð fyrir að uppbyggingin taki 12 mánuði og gerir ráð fyrir að nýta 3G tæknina við uppbygginguna. Frá þessu segir á mbl.is. Áður hefur komið fram hjá Fjarskiptasjóði að ekki eigi að verða nokkrar tafir á að fara yfir útboð og ganga í framhaldi af því til samninga og bíða sjálfsagt margir spenntir eftir að sjá hvaða hraða verður boðið upp á bæði við gagnaflutninga og framkvæmdir.


Í fréttinni á mbl.is segir: "Markmið útboðsins er, sbr. Fjarskiptaáætlun 2005-2010, að allir landsmenn, sem þess óska, hafi aðgang að háhraðanettengingum. Verkefnið er því uppbygging á háhraðanettengingum á þeim stöðum þar sem markaðsaðilar eru ekki eða ætla ekki að bjóða upp á háhraðanettengingar á markaðslegum forsendum, samkvæmt tilkynningu frá Símanum. … Tilboðin verða metin úr frá m.a. hraða við uppbygginguna, gagnaflutningshraða auk tilboðsfjárhæðar."