26/12/2024

Hagvöxtur á heimaslóð

Fyrsta helgarlotan í námskeiðinu Hagvöxtur á heimaslóð á Vestfjörðum og Ströndum var haldin í Laugarhól í Bjarnarfirði fyrir nokkru. Þar mættu 18 aðilar frá 14 fyrirtækjum víðs vegar af Vestfjarðakjálkanum og stunduðu stíft nám alla helgina, en námskeiðið er haldið á vegum Útflutningsráðs. Allmörg ferðafyrirtæki af Ströndum tóku þátt í námskeiðinu – Hótel Laugarhóll, Sundhani ST-3, Strandagaldur, Sauðfjársetrið, Svaðilfari, auk atvinnuráðgjafa AtVest á Hólmavík. Voru alls 8 þátttakendur af Ströndum. Framundan er heilmikil heimavinna og fleiri námslotur.

Verkefnin, sem standa í um tvo mánuði, miða að því að efla faglega hæfni í stefnumótun, vöruþróun, verðlagningu og markaðssetningu. Sérstök áhersla er lögð á tengslanet og samstarf innan og milli svæða.

Í fréttabréfi Útflutningsráðs segir að góður andi hafi ríkt á fundinum og margar hugmyndir um hvernig megi efla ferðaþjónustu á Vestfjörðum komið fram. Mikil áhersla var lögð á skýra stefnumótun, samvinnu í samkeppni, sameiginlega ímynd og markhópamiðaða markaðssetningu. Einnig var rætt um breyttar væntingar ferðamanna, mikilvægi faglegrar þjónustu, dreifingu valds og ábyrgðar til starfsmanna og sitthvað fleira nýtilegt.