22/12/2024

Hafnarbraut 20 með skemmtilegustu skreytinguna

Börnin í Leikskólanum Lækjarbrekku hafa að venju valið það hús sem er skemmtilegast skreytt fyrir jólin, en þetta er árviss viðburður í skólanum. Á vef Lækjarbrekku www.123.is/laekjarbrekka kemur fram að elstu börnin fóru með skólabílnum í sinn árlega jólaljósarúnt þar sem seríurnar og skreytingarnar voru skoðaðar, en margir Hólmvíkingar standa sig vel við skreytilistina. Í lokin var svo kosið skemmtilegast skreytta húsið að mati leikskólabarna og var sigurvegarinn í ár Hafnarbraut 20 þar sem Daníel Ingimundarson og María Antonía búa með börnum sínum. Fengu þau viðurkenningarskjal fyrir, en sérstaka lukku vakti ljósum skreyttur torfærubíll uppi á þaki.