22/12/2024

Gullaldarliðið stefnir á Strandir

Síðastliðinn föstudag kom saman í Reykjavík hluti af fyrrum leikmönnum HSS í fótbolta frá árunum 1975-77, en á þessum árum náði knattleikni Strandamanna áður óþekktum hæðum. Var ákveðið að koma saman á Hólmavík aðra helgina í júlí í sumar eða laugardaginn 9. júlí og minnast þess að þrjátíu ár (hummmmmmm) eru liðin frá því að þetta farsæla knattspyrnulið lék listir sínar á Sævangi fyrir stórum hópi áhangenda.

Í tilskrifi frá Magnúsi Ólafs Hanssyni í Bolungarvík kemur fram að ætlun leikmannanna sé að setja upp ljósmyndasýningu á Hólmavík frá þessum árum: „Okkur þætti vænt um ef einhverjir ættu myndir frá þessum árum, af liðinu, að lána þær svo hægt verði að koma þeim í sýningarhæft ástand. Myndirnar verði sendar til Ödda Stefáns en heimilisfang hans er: Örn L. Stefánsson – Breiðuvík 20 – 112 Reykjavík. Myndirnar verða að sjálfsögðu sendar til eiganda þeirra eftir að búið er að skanna þær."

Gullaldarliðið sem samanstendur bæði af brottfluttum og heimamönnum mun væntanlega rifja upp og sýna ýmsar knattkúnstir í sumar. Einnig vonast liðsmenn til að sparkvöllur sem mun ætlað að vera við skólann verði tekinn formlega í notkun þessa helgi.