22/12/2024

Guðbrandur Sverrisson Íslandsmeistari í hrútadómum

 Þá er Íslandsmeistaramótinu í hrútadómum 2011 lokið. Alls tóku fimmtíu manns þátt, þrjátíu í flokki óvanra og tuttugu í flokki vanra hrútadómara. Það var Strandamaðurinn Guðbrandur Sverrisson á Bassastöðum sem fór með sigur af hólmi í flokki vanra þuklara, en Guðbrandur náði öðru sæti árið 2003 og því þriðja árið 2005. Guðbrandur hlaut til varðveislu í eitt ár verðlaunagripinn Horft til himins sem er tileinkaður minningu Brynjólfs Sæmundssonar ráðunautar, auk fjölda annarra verðlauna. Í öðru sæti varð Íslandsmeistarinn 2010, Elvar Stefánsson í Bolungarvík, og þriðja varð Guðlaug Sigurðardóttir bóndi á Hraunhálsi í Helgafellssveit á Snæfellsnesi.

Keppendur af Snæfellsnesi gerðu það gott á mótinu því í flokki óvanra fóru mæðgurnar Guðrún Hauksdóttir og Elín Inga Lárusdóttir frá Ögri á Snæfellsnesi með sigur af hólmi. Í öðru sæti varð Linda Jónsdóttir og saman í því þriðja urðu Margrét Vera Mánadóttir á Heiðarbæ í Tungusveit og yngissveinninn Guðmundur Björgvin Þórólfsson á Innri-Ósi við Steingrímsfjörð, en hann er aðeins þriggja ára og naut smávægilegrar aðstoðar móður sinnar, Ragnheiðar Birnu Guðmundsdóttur, við að skrá álit sitt á blaðið. 

Úrslit Íslandsmeistaramótsins voru þessi:

Óvanir hrútaþuklarar (sjá mynd fyrir ofan):
1) Guðrún Hauksdóttir og Elín Inga Lárusdóttir, Ögri við Stykkishólm
2) Linda Jónsdóttir, Árgerði í Skagafirði
3) Guðmundur Björgvin Þórólfsson (3ja ára) á Innri-Ósi og Margrét Vera Mánadóttir í Heiðarbæ

Vanir hrútaþuklarar (sjá mynd fyrir ofan):
1) Guðbrandur Sverrisson, Bassastöðum
2) Elvar Stefánsson, Bolungarvík
3) Guðlaug Sigurðardóttir, Hraunhálsi í Helgafellssveit 
 

Hrútarnir sem voru dæmdir voru fjórir talsins, þrír í eigu Jóns Stefánssonar á Broddanesi og einn í eigu Matthíasar Lýðssonar í Húsavík. Verðlaun voru afar vegleg, meðal annars fengu sigurvegararnir í vana flokknum 5, 10 og 15 skammta af hrútasæði frá Sauðfjársæðingarstöð Vesturlands. Margir aðrir vinningar voru einnig veittir keppendum í þremur efstu sætum í hvorum flokki frá Sauðfjársetrinu, Kaupfélagi Steingrímsfjarðar, Ferðaþjónustunni Kirkjubóli og Ferðaþjónustunni Heydal.
 
Lárus Birgisson ráðunautur fór fyrir dómnefndinni að þessu sinni í fjarveru Jóns Viðars Jónmundssonar, en með honum dæmdi Kristján Óttar Eymundsson ráðunautur hjá Búnaðarsambandi Húnaþings og Stranda. Gestum og þátttakendum dómanna er þakkað kærlega fyrir komuna og um leið eru menn boðnir velkomnir á Íslandsmeistaramót í hrútadómum árið 2012.