22/12/2024

Grjót mulið í slitlagið

Eins og glöggir vegfarendur hafa tekið eftir hefur heilmikil mulningsvél verið að störfum síðustu vikur rétt utan við Víðidalsá og er verið að mala sprengigrjót. Grjótið verður væntanlega m.a. notað í að bikfesta veginn sunnan við Hólmavík og út að Heydalsá, en sums staðar á leiðinni er slitlagið orðið óslétt og illa farið. Einnig hyggst Vegagerðin bikfesta Hafnarbrautina inn í Hólmavík í sumar. Ritstjóri strandir.saudfjarsetur.is stendur í þeirri meiningu að bikfesting fari þannig fram að fyrst sé slitlagið sem fyrir er fræst upp og því hrært saman við undirlagið og síðan sé hrærunni þjappað vandlega niður ásamt með grjótmulningi. Að því loknu sé lagt nýtt slitlag ofaná. Eru þeir sem betur vita beðnir að leiðrétta þessa lýsingu ef hún er fjarri sanni.

Mulningsvélar að störfum – ljósm. Jón Jónsson.