19/04/2024

Grettishátíð í Húnaþingi vestra

Dagana 11.-13. ágúst verður haldin Grettishátíð á Laugarbakka og Bjargi í Húnaþingi vestra. Hátíðin dregur nafn sitt af kappanum Gretti sterka Ásmundarsyni frá Bjargi í Miðfirði. Nú í ár eru 10 ár síðan hátíðin var fyrst haldin og verður hún því með veglegu sniði að þessu sinni. Hátíðin hefst föstudagskvöldið 11. ágúst með opnun víkingabúða og handverkssýninga í Grettisbóli á  Laugarbakka. Meðal þeirra sem fram koma á hátíðinni er víkingahópurinn Rimmugýgur og Hringhorni, Benedikt búálfur, persónur úr Ávaxtakörfunni, kvæðamenn og þjóðlagatríó og heilmikil kraftakeppni verður haldin að venju.

Laugardaginn verður síðan mikil dagskrá Meðal atriða má nefna félaga úr víkingahópunum Rimmugýg og Hringhorna sem sýna bardagalistir og fornmannaleiki. Benedikt Búálfur og persónur úr ávaxtakörfunni skemmta börnum ásamt því að þrautabraut og hestar verða á svæðinu. Að lokum verður gestum  boðið upp á grillveislu að hætti víkinga.

Á laugardagskvöldið verður dagskrá í félagsheimilinu Ásbyrgi á Laugarbakka þar sem fram koma félagar úr kvæðamannafélaginu Vatnsnesingi, Elfar Logi Hannesson sýnir einleik um Gísla sögu Súrssonar og að lokum stígur á stokk þjóðlagatríóið Kliður fornra strauma en tríóið skipa þau Steindór Anderssen, Sigurður Rúnar Jónsson og Bára Grímsdóttir.

Á sunnudaginn 13. verður dagskrá að Bjargi í Miðfirði. Þar verður boðið uppá söguskoðun og leiðsögn ásamt því að háð verður aflraunakeppni undir stjórn Andrésar Guðmundssonar,  þar sem gestum gefst kostur á að reyna sig við hin ýmsu Grettistök.

Grettishátíð er hátíð fyrir alla fjjölskylduna þar sem jafnt ungir og þeir sem eldri eru munu finna eitthvað við sitt hæfi. Tjaldstæði eru við verslunina Bakka á Laugarbakka og fjölmargir aðrir gistimöguleikar eru í boði á svæðinu. Sjá nánar og www.grettistak.is