19/04/2024

Gönguleið í Mókollsdal

Í Mókollsdal í Kollafirði er náttúruperla sem fáir vita af. Þar er að finna Mókollshaug en þar segir að Mókollur landnámsmaður sem bjó á Felli í sömu sveit sé heygður ásamt auðæfum sínum. Á 18. öld var fræðimaðurinn og landkönnuðurinn Ólafur Olavius gerður út af örkinni af Danakonungi til að kanna sérstök leirholt sem er að finna þarna í dalnum, en leirinn virtist hæfur til postulínsgerðar. Stóð til að gera tilraunir með hann, en skipið sem átti að flytja tilraunasýni til Kaupmannahafnar fórst á leiðinni. Leir þessi er kallaður bleikja og þar sem hann fannst heitir Bleikjuholt. Þótti hann góður til að lita fatnað með fyrr á öldum. Tíðindamaður strandir.saudfjarsetur.is, Benedikt S. Pétursson átti  leið um þessar slóðir fyrir rétt um ári síðan, þann 27. júlí 2005 og smellti af meðfylgjandi myndum ásamt Signýju Ólafsdóttur af þessari einu af mörgum náttúruparadísum á Ströndum.

Benedikt var á ferð um Mókollsdal ásamt Signýju Ólafsdóttur,  Ingvar Péturssyni og Bryndísi Sigurðardóttur, öll búsett á Hólmavík.  Þau  fóru á tveimur bílum frá Hólmavík og óku inn í Kollafjörð og skildu annan bílinn eftir fyrir neðan býlið Fell. Þaðan héldu þau svo áfram á hinum bílnum og óku upp á Steinadalsheiði. Ekið var þar upp á miðja heiðina þegar komið er að vatninu og gengu upp hlíðina í átt að Bitruhálsi. Gangan þaðan í Mókollsdal tekur um það bil eina klukkustund og um það bil 2 – 3 klukkustundir niður dalinn og að Felli aftur.  


Mókollshaugur


Strax á brún dalsins breytist landslagið  mikið


Voru þá komin í grjóturð mikla sem sjá má á myndinni


Áð við Bleikjuholt. Á sínum tíma voru kannaðir möguleikar til þess að skapa verðmæti úr leirnum í Bleikjuholti og kom m.a. til umræðu að leggja járnbrautarteina frá dalnum til sjávar í upphafi 20. aldar. Ekkert varð úr þeim áformum, en allmargir hestburðir af leir voru þó fluttir úr landi þá. Leirholtið í Mókollsdal eru friðlýst í dag.


Á leið niður dalinn var áð við Hrútagil. Þar má finna steingerfinga sem eru að sjálfsögðu alfriðaðir. Á leið um þessa gönguparadís er að sjálfsögðu við hæfi að sýna landinu fullkomna virðingu.

Ljósm:: Benedikt S. Pétursson og Signý Ólafsdóttir