22/12/2024

Gömludansaball á Hólmavík

Síðan á þorra hafa eldri borgarar á Hólmavík og nemendur í 8.-10. bekk Grunnskólans á Hólmavík mætt í Félagsheimilið á hverjum miðvikudegi eftir hádegi og stigið þar saman dans. Auk þeirra hafa nokkrir kennarar og foreldrar tekið þátt í dansinum. Þeir eldri hafa leiðbeint þeim yngri um réttu sporin í gömlu dönsunum og allir hafa fengið góða þjálfun í að dansa vals og tangó, polka, skottís, vínarkrus, fingrapolka, óla skans og marsera og fara í kokkinn. Nú er komið að uppskeruhátíðinni, miðvikudagskvöldið 15. apríl,
klukkan 20:00 – 22:00 verður Gömludansaball á vegum eldri borgara og eldri nemenda.

Aðgangseyrir er enginn en gos og nammi selt á staðnum. Spariklæðnaður er áskilinn og allir eru hjartanlega velkomnir.

Æfingar fyrir ballðið hafa farið fram undir styrkri stjórn Hrólfs Guðmundssonar dansstjóra, Aðalheiðar Ragnarsdóttur, Ásdísar Jónsdóttur harmonikuleikara og þeirra fríða föruneytis.