22/12/2024

Fyrirlestur um sögu verkalýðsfélaga í Hnyðju


Sigurður Pétursson sagnfræðingur, sem nú dvelur í Skelinni, mun flytja fyrirlestur í Hnyðju í Þróunarsetrinu á Hólmavík þann 14. nóvember kl. 17:00. Hann vinnur nú að sögu Verkalýðshreyfingarinnar á Vestfjörðum, á vegum Alþýðusambands Vestfjarða og Verkalýðsfélags Vestfirðinga. Fyrsta bindi sögunnar nefnist Vindur í seglum og kom út árið 2011. Annað bindi verksins er væntanlegt á næsta ári og nær það yfir tímabilið 1930-1970. Í fyrirlestrinum mun hann einkum fjalla um sögu verkalýðsfélaga í Strandasýslu. Allir eru hjartanlega velkomnir.

Verkalýðshreyfingin nam land í Strandasýslu í miðri kreppnni miklu. Fjögur verkalýðsfélög voru stofnuð þar á árunum 1934-1935: Verkalýðs- og smábændafélag Hrútfirðinga 16. febrúar 1934. Verkalýðsfélag Hólmavíkur 8. mars 1934. Verkalýðsfélag Selstrandar, síðar Verkalýðsfélag Kaldrananeshrepps 17. júní 1934. Verkalýðsfélag Árneshrepps 2. nóvember 1935.

Félögin voru stofnuð í þeim hreppum sýslunnar þar sem þéttbýli hafði skotið rótum og aðstæður kölluðu á samtök verkafólks gagnvart atvinnurekendum. En það voru fleiri öfl að verki. Innan verkalýðshreyfingarinnar stóð hatrömm barátta um forræði verkalýðsfélaganna á milli jafnaðarmanna og kommúnista. Keppni þeirra um áhrif og völd varð til að ýta undir stofnun nýrra félaga á smærri þéttbýlisstöðum víða um land. Skyndilegt landnám verkalýðshreyfingarinnar í Strandasýslu er hluti af þeirri þróun.

Félögin fjögur máttu öll sanna tilverurétt sinn, hvert með sínum hætti. Þau mættu andstöðu frá hendi atvinnurekenda, sem töldu slík kaupkröfufélög ekki eiga heima í samfélagi Strandamanna. Þrátt fyrir það náðu verkalýðsfélögin að hasla sér völl, með heildarsamtök verkalýðsins sér að baki og hafa áhrfi á hag félagsmanna og þróun samfélagsins.