22/12/2024

Fundargerð frá Hólmavíkurhreppi

Fréttavefnum strandir.saudfjarsetur.is barst í dag fundargerð frá fundi hreppsnefndar í Hólmavíkurhreppi frá 21. mars síðastliðnum og er hún birt í heild sinni hér fyrir neðan. Á fundinum hefur m.a. verið rætt um lóðamál Hólmavíkurhrepps og kemur fram að sótt hefur verið um lóð fyrir nýtt íbúðarhús við Vitabraut á Hólmavík. Framboð á lóðum mun annars vera fremur takmarkað á Hólmavík. Einnig var rætt um staðsetningu olíutanka á Hólmavík og virðist bæði koma til greina að hafa þá á Skeiði og við höfnina. Lóðamálunum og umsögn byggingafulltrúa um þau var svo vísað til Byggingar-, umferðar og skipulagsnefndar. Þá var sveitarstjóra falið að ganga frá leigu á hluta af landi Víðidalsár undir skógrækt. 

Fundur í hreppsnefnd Hólmavíkurhrepps, nr. 1073.
 
Ár 2006 þriðjudaginn 21. mars var haldinn fundur í hreppsnefnd Hólmavíkurhrepps. Fundurinn var haldinn á skrifstofu hreppsins og hófst hann kl. 17:00.
 
Haraldur V. Jónsson oddviti setti fundinn og stjórnaði honum, en auk hans sátu fundinn Valdemar Guðmundsson, Hlíf Hrólfsdóttir varamaður, Eysteinn Gunnarsson og Kristín S. Einarsdóttir. Ennfremur sat fundinn Ásdís Leifsdóttir sveitarstjóri. Fundarritari var Engilbert Ingvarsson.
 
Þetta var gert:
 
Oddviti bar upp tillögu um afbrigði við boðaða dagskrá tekið verði fyrir 6. mál, það er lóðamál. Afbrigði var samþykkt samhljóða.
 
Oddviti kynnti þá eftirfarandi dagskrá í 6 töluliðum:
 
1. Tilkynning frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga um 51. Fjórðungsþing Vestfirðinga.
2. Drög að leigusamningi um 198 hektara hlut af landi Víðidalsár til fjölnytjaskógræktar.
3. Beiðni um styrk frá Kómedíuleikhúsinu dags. 2. mars 2006.
4. Fundargerð Félagsmálaráðs dags. 20. mars 2006.
5. Fundargerð Byggingar-, umferðar og skipulagsnefndar Hólmavíkurhrepps dags. 20. mars 2006.
6. Lóðamál.
 
Þá var gengið til dagskrár:
 
1. Tilkynning frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga um 51. Fjórðungsþing Vestfirðinga.
Borist hefur tilkynning dags. 28. febr. 2006 um Fjórðungsþing Vestfirðinga, sem haldið verður í Súðavík 1. og 2. september 2006. Lagt fram til kynningar.

2. Drög að leigusamningi um 198 hektara hlut af landi Víðidalsár til fjölnytjaskógræktar.
Lögð fram drög að samningi um leigu á landi til skógræktar í landi Víðidalsár. Eysteinn Gunnarsson vék af fundi við afgreiðslu málsins, en gaf upplýsingar um landsssvæðið áður og svaraði spurningum nefndarmanna. Samþykkt var samhljóða að fela sveitarstjóra að ganga frá leigusamningi Hólmavíkurhrepps um land til skógræktar að Víðidalsá við Eystein Gunnarsson og Jensínu G. Pálsdóttur.

3. Beiðni um styrk frá Kómedíuleikhúsinu dags. 2. mars 2006.
Borist hefur bréf frá Elfari Loga Hannessyni og Kómedíuleikhúsinu á Ísafirði, þar sem sótt er um styrk að upphæð kr. 200.000.- Samþykkt var samhljóða með öllum atkvæðum að hafna erindinu.

4. Fundargerð Félagsmálaráðs dags. 20. mars 2006.
Fundargerðin var bókuð í trúnaðarbók nefndarinnar. Fundargerðin var samþykkt.

5. Fundargerð Byggingar-, umferðar og skipulagsnefndar Hólmavíkurhrepps dags. 20. mars 2006.
Lögð fram fundargerð B.U.S frá 20. mars. Fundargerðin var samþykkt.

6. Lóðamál.
Á síðasta fundi hreppsnefndar var frestað afgreiðslu á erindi til B.U.S, lóðarumsókn til byggingar einbýlishúss við Vitabraut. Lagt fram bréf frá byggingafulltrúa dags. 20. mars 2006, en hann hefur ásamt Haraldi oddvita og Einari verkstjóra skoðað tiltækar lóðir. Í bréfinu er bent á þá kosti sem koma til greina við lóðaúthlutun. Ennfremur var lagt fram bréf frá byggingafulltrúa dags. 20. mars s.l. varðandi skoðun á hugsanlegri lóð fyrir olíutanka. Núverandi staðsetning á olíutönkum samræmist ekki gildandi reglum og hefur Olíudreifing því sótt um lóð undir nýja olíugeyma. Byggingafulltrúi skoðaði þá staði sem koma til greina fyrir nýja olíugeyma og gerir grein fyrir kostum og göllum við hugsanlega lóð við höfnina á Skeiði. Samþykkt var samhljóða að vísa þessum lóðamálum með umsögn byggingafulltrúa til Byggingar,- umferðar og skipulagsnefndar.

Fundargerð lesin upp og samþykkt. Fleira ekki gert, fundi slitið kl. 19:25.

Hlíf Hrólfsdóttir (sign)
Haraldur V. Jónsson (sign)
Valdemar Guðmundsson (sign)
Eysteinn Gunnarsson (sign)
Kristín S. Einarsdóttir (sign)
Ásdís Leifsdóttir (sign)