08/10/2024

Indriði bóndi og kötturinn Moli

Þeir félagar Indriði bóndi og vargabani á Skjaldfönn og heimiliskötturinn og veiðiklóin Moli sem nú heitir Minka-Moli hafa ekki legið á liði sínu undanfarna morgna. Indriði hefur nú á fimm morgnum, eftir að birta fer, skotið 12 refi við agn skammt frá bænum og þar af einu sinni tvo í sama skoti. Eins og sjá má af þessu hefur verið mikill ágangur í agnið hjá Indriða, en agnið var hrútur sem fórnað var í þeim tilgangi að að fækka ögn í þeim mikla fjölda refa sem eins og Indriði orðar það “steðjar suður frá vargafriðunarsvæðinu á Hornströndum.” Ekki er annað að sjá en að Indriði bóndi hafi þar nokkuð til síns máls, ef litið er til þess fjölda refa sem telja það áhættunnar virði að mæta í mat á Skjaldfönn.

Þá hefur einnig Konráð nokkur, rottu- og geitungabani úr Reykjavík, lagt Skjaldfannarbónda lið. Hann lagði þrjár tófur að velli nokkrum dögum áður, þannig að 15 tófur hafa fallið á Skjaldfönn síðustu daga og hefur líklega stundum fengist lægra verð fyrir gamlan brundhrút.

En á meðan Indriði bóndi starfaði að refum sá kötturinn Moli fyrir tveimur minkum. Indriði fann þann fyrri dauðan í hlöðunni fyrir nokkru. Þá taldi hann að kauði hefði ekki talið sér sæmandi að éta hey sem hver annar ásauður og því drepist úr sulti er mýsnar voru uppétnar.

Svo var það einn morgun er Indriði og Moli voru á leið til fjárhúsa að Indriði tók eftir minkaförum niður með bænum og tók strax til við að kanna hvert kauði hefði lagt sína leið. Þá stóð minkurinn á bæjarhellunni við aðaldyrnar. Bóndi hafði ekki tekið byssuna með í fjárhúsin fremur venju og hafði ekki annað vopna en skóflu. Lagði hann þó strax til atlögu við fantinn sem sá sitt óvænna og hljóp upp með húsvegg og þaðan inn í fyrrnefnda hlöðu. Kötturinn Moli hljóp á eftir, en Indriði hljóp og sótti byssu sína og kom aftur skömmu síðar. Þá sat kisi á bossanum og sleikti sig, en fyrir fótum hans lá minkurinn steindauður.

Þess má geta að fyrir fáum árum komst minkur inn í íbúðarhúsið á Skjaldfönn. Sá fór að vísu ekki aðaldyrameginn, heldur komst hann upp um klósettið og varð frægur af en ekki langlífur, því þeim sem fyrir var þótti heimsóknin sú ekki góð.

Veiðimaðurinn Indriði á Skjaldfönn, ánægður með fenginn

Eins og sjá má þekur veiðin margar síður af Mogganum

Seinni minkurinn, mjög lítil læða, mætti ofjarli sínum í hlöðunni

Mola fannst fátt til um frægðina og rak upp stór augu framan í ljósmyndarann undir hrútajötunni – ljósm. Guðbrandur Sverrisson