02/05/2024

Fuglahræðukeppni á Bryggjuhátíð 19. júlí

Tvær fuglahræður á Ströndum og tveir fuglahræðusmiðirEitt af því sem setur svip á Strandir og vorin og sumrin er mikill fjöldi fuglahræða í fjörum. Víðast hvar eru hræðurnar í æðarvarpi og tilgangurinn er fyrst og fremst að hæna að æðarfuglinn og hræða um leið varginn til að halda sig fjarri. Það er því vel til fundið að á dagskrá Bryggjuhátíðar á Drangsnesi þann 19. júlí næstkomandi verður keppt um hver gerir best heppnuðu fuglahræðuna. Víða um heim fara svona keppnir fram og draga til sín fjölda fólks, enda hugsaðar til að hafa gaman af og eins lífga fígúrurnar upp á tilveruna og kalla jafnvel fram bros.

Í tilkynningu frá Bryggjuhátíð kemur fram að þetta er ekki síst hugsað sem skemmtilegt verkefni fyrir fjölskyldur að vinna saman að. Það er  gæða samverutími sem fer í hugmyndavinnu og svo sjálfa framkvæmdina. Allir geta tekið þátt,  hvort heldur það eru fjölskyldur, einstaklingar, gestir eða fyrirtæki. Hræðurnar eða fígúrurnar geta verið af öllum stærðum og gerðum, hefðbundnar eða óhefðbundnar – og í góðu lagi er að setja þær upp á húsalóðum á Drangsnesi, en nauðsynlegt að þær séu þannig staðsettar að þær sjáist vel frá vegi. Einnig má setja þær upp á valda staði þar sem þær eru ekki fyrir og sjást vel, en að sjálfsögðu þarf leyfi umráðamanna viðkomandi lóða.

Nauðsynlegt er að tilkynna þátttöku  í síðasta lagi fimmtudaginn 17. júlí og fá úthlutað númeri til að merkja hræðuna með og staðsetningu fyrir hana. Gestir Bryggjuhátíðar fá svo kort af Drangsnesi, þar sem hræðurnar eru merktar inn með númerum. Gestir velja verðlaunahræðuna með því að skrifa númer hræðunnar á kortið. Þátttaka kostar ekkert nema tíma og fyrirhöfn en gefur gleði til allra og vinningshafa verðlaun.

Bryggjuhátíð hvetur alla til að vera með og taka þátt í þessari skemmtilegu keppni.