22/12/2024

Frábær árangur á Landsmóti 50+

Keppendur frá HSS gerðu góða ferð á Landsmót 50 ára og eldri sem fór fram á Hvammstanga fyrir skemmstu. Strandamenn stóðu sig með glæsibrag og rökuðu inn verðlaunum.  Hlaupagarpurinn Rósmundur Númason krækti sér í tvö silfur, annað í 60 metra hlaupi og hitt í 3000 m. hlaupi. Þá náði Rósi einnig í eitt brons í fjallaskokki í flokki 50 ára og eldri. Glæsilegur árangur þarna á ferðinni. Hjónin Guðmundur Victor Gústafsson og Birna Richardsdóttir kepptu í golfkeppni mótsins og náðu glæsilegum árangri, Guðmundur Victor varð í öðru sæti karla og Birna endaði í þriðja sæti í kvennaflokki. 

Stærsti hópurinn frá HSS keppti í bridge og náðu þar ágætum árangri. Önnur sveitin, skipuð þeim Karli Þór Björnssyni, Guðbrandi Björnssyni, Jóni Ólafssyni og Sigfinni lenti í fjórða sæti eftir að hafa verið í verðlaunasæti lengi fram eftir keppninni. Sveit skipuð þeim Ingimundi Pálssyni, Birni Pálssyni, Maríusi Kárasyni og Guðjóni Dalkvist urðu tíunda sæti.

Ingimundur Pálsson lét sér ekki nægja að keppa í briddsinu. Hann lét bæta sér við í keppni í dráttarvélaakstri á sunnudag og sá hreint ekki eftir því þar sem hann náði öðru sæti með glæsilegum akstri. Í efsta sæti varð Skúli Einarsson bóndi á Tannstaðabakka sem fór villulaust í gegnum brautina.