23/04/2024

Sumarvegir þungfærir eða ófærir

Samkvæmt vef Vegagerðarinnar eru sumarvegirnir um Tröllatunguheiði og Þorskafjarðarheiði enn lokaðir vegna ófærðar, en vegurinn um Steinadalsheiði milli Gilsfjarðar og Kollafjarðar er sagður þungfær. Hálkublettir eru á Strandavegi í Árneshrepp, norðan Bjarnarfjarðar og að Gjögri. Vegurinn um Arnkötludal er ennþá lokaður nú að morgni 1. október og unnið að lokafrágangi á honum. Vegfarendur aka því að venju um sunnanverðar Strandir, en rétt er að vara við því að vegurinn milli Þorpa og Heydalsár í Steingrímsfirði er óvenju slæmur, holóttur og hörmulegur, og þyrfti á veghefli að halda. Samkvæmt gildandi Samgönguáætlun 2007-2010 á að leggja nýjan veg á þessum 4 km vegarkafla á árinu 2010.