26/04/2024

Fótboltakappar syðra æfa stíft

Eins og áður hefur verið sagt frá hér á strandir.saudfjarsetur.is er fyrirhugað fótboltamót í hinu nýja íþróttahúsi á Hólmavík þann 19. nóvember n.k. Mikill áhugi er á þessu móti sunnan heiða og streyma skráningar inn. Til að mynda hafa Strandamenn sem léku með gullaldarliði HSS á seinni hluta síðustu aldar verið að kanna hvort næg hreyfigeta sé enn í liðinu og þeir eru farnir að leita að skónum sem lagðir voru á hilluna fyrir áratugum. Ekki er loku fyrir það skotið að hægt verði að deila upp í riðla þar sem eldri fái að sprikla saman, en það er af sjálfsögðu háð fjölda liða. 

Ekkert hefur hins vegar heyrst í norðanmönnum varðandi þátttöku, en þeir hljóta að fara að vakna til lífsins og skrapa saman í nokkur lið. Gaman væri til dæmis að sjá Trjónuboltaliðið sem gert hefur garðinn frægan, taka niður grímurnar og stimpla inn með lið. Eins gætu fyrirtæki smellt inn liði. Ekki er þó nauðsynlegt að skrá inn heilt lið, einstaklingar geta alveg eins skráð sig og mætt á staðinn og verður þeim þá skipað í lið eftir þörfum og má ítreka í því sambandi að leikið verður á léttu nótunum og allur æsingur illa séður.

Skráning er í fullum gangi hjá Flosa Helgasyni í síma 865-5530 eða hjá Smára Jóhannssyni í netfanginu strandamenn@simnet.is. Vonandi verður hægt að gera þetta mót að árlegum viðburði þar sem brottfluttir Strandamenn koma norður og gera sér glaðan dag ásamt heimamönnum.