11/10/2024

Forskot á hamingjuna

Um helgina verður bæjarhátíðin Hamingjudagar haldin á Hólmavík og strax í dag tók íbúar á Ströndum dálítið forskot á hamingjuna. Í Náttúrubarnaskólanum á Sauðfjársetrinu í Sævangi var haldið námskeið með hamingjuþema og á Skeljavíkurgrundum var haldið fótboltamót á vegum Héraðssambands Strandamanna (HSS). Á báðum stöðum lét unga fólkið sig engu varða þótt einn og einn rigningardropi félli af himnum, en skemmti sér hið besta og hamingjan var við völd.

Í kvöld voru svo tónleikar í Steinshúsi á Nauteyri við Djúp þar sem sagðar voru sögur og spiluð tónlist. Rúnar Þór, Tryggvi Hübner og Örn Jónsson komu fram og munu skemmta aftur annað kvöld.

Hér má finna dagskrá Hamingjudaga á Hólmavík.

Fyrir suma felst hamingjan í náttúruskoðun, en aðrir finna hamingjuna í fótbolta – ljósm. strandir.saudfjarsetur.is