Categories
Frétt

Fólki, farmi og bílum bjargað

Þó nokkur útköll hafa verið hjá björgunarsveitinni Dagrenningu á Hólmavík á fyrsta ársfjórðingi 2009 og nóg að gera. Sveitin hefur farið til aðstoðar fólki og bílum sem hafa ýmist setið fastir í snjó eða lent utan vegar, allt frá Bitrufirði til Mjóafjarðar við Djúp. Flutningabílar hafa reglulega oltið á Ströndum það sem af er ári eða komið sér á annan hátt í vandræði svo bjarga hefur þurft farmi og bílum. Blessunarlega hefur þetta þó sloppið stórslysalaust. Sérkennileg verðmætabjörgun var á dagskránni aðfararnótt síðasta laugardags, þar sem flutningabíll skutlaðist út af veginum sunnanvert í Ennishálsi. Hélst hann á hjólunum en kastaði út farminum sem var 25 kör af sæpungum eða konupungum sem þetta sjávarlindýr kallast líka.

Á sunnudagskvöldið var síðan farið að Hvalsárhöfða og bíll sem var þar fastur var losaður úr snjó.

Fleiri myndir af björgun sæpunganna má finna á vef Dagrenningar – www.123.is/dagrenning.