22/12/2024

Flutningabíll fastur á veginum

Djúpvegur lokaðist um tíma í nótt við Heydalsá í Steingrímsfirði á Ströndum, þar sem áin hafði grafið undan veginum utan við brúarstólpann sunnanvert við brúna. Djúp hola myndaðist þegar burðarlagið féll síðan niður. Flutningabíll lenti þar með hjólið ofan í þegar burðarlagið gaf sig og sat fastur þar til Vegagerðin kom til hjálpar. Var bíllinn hífður upp með gröfu áður en gert var við vegaskemmdirnar. Tóku aðgerðir um einn og hálfan tíma. Einnig urðu nokkrar skemmdir í gær á vegakantinum við Gervidalsá við Ísafjörð þar sem áin rann meðfram veginum um 600 metra og síðan yfir hann. Vegurinn lokaðist þó aldrei þar.    

Heydalsárbrú – ein af 13 einbreiðum brúm frá Brú í Hrútafirði til Hólmavíkur – ljósm. Jón Jónsson