19/07/2024

Flokkað og skilað allan sólarhringinn á Ströndum

Sorpsamlag Strandasýslu hefur látið útbúa lúgur á hús samlagsins á Skeiði 3 á Hólmavík fyrir þá sem flokka og skila. Menn eru því ekki háðir ákveðnum opnunartíma lengur, heldur geta einfaldlega mætt og skilað góssinu flokkuðu inn um viðeigandi lúgur hvenær sem er. Ef um mjög mikið magn af endurvinnanlegu er að ræða vilja starfsmenn Sorpsamlagsins þó biðja fólk um að hafa samband og finna tíma fyrir mótttöku í stað þess að skila öllu um lúgurnar. Flokkað er í 6 flokka og skilað um lúgurnar, hart plast, litað mjúkt plast, ólitað mjúkt plast, pappír, pappa og bylgjupappa. Utan við húsið eru ílát fyrir timbur, gler, spilliefni og málma.