29/03/2024

Rækjuvefurinn í Elearning Awards

Það ætti ekki að hafa farið framhjá neinum sem fylgist með fjölmiðlum að rækjuvefur Grunnskólans á Hólmavík vann til fyrstu verðlauna í samkeppni um besta sjávarútvegsvefinn nú í haust. Nú hafa aðstandendur vefjarins skráð hann í Evrópusamkeppnina Elearning Awards, en þar er verðlaunað framúrskarandi námsefni á netinu. Ljóst er að um mikla samkeppni er að ræða, en rúmlega 700 verkefni frá ýmsum Evrópulöndum voru skráð til keppni þegar skráningarfrestur rann út 19. október sl. Til þessa hafa fjögur íslensk verkefni unnið til verðlauna í keppninni.

Ár hvert eru birt hundrað bestu verkefnin og í fyrra voru fjögur íslensk verkefni þar á meðal. Í ár eru fjórtán íslensk verkefni frá ellefu skólum á öllum skólastigum skráð til keppni. Eitt þeirra var kennsluvefur um Gísla sögu Súrssonar, en sögusvið hennar er sem kunnugt er Vestfirðir. Verðlaunaafhending í keppninni fer fram í París þann 8. desember næstkomandi, svo það ætti að skýrast á næstu vikum hvort rækjuvefurinn nær árangri í keppninni.

Hér eru svo slóðir með nánari upplýsingum:
http://www.menntagatt.is/?pageid=373
http://elearningawards.eun.org/