26/04/2024

Fjör í Reykjanesi um helgina

Um verslunarmanna-helgina verður skipulagt heilmikið fjör í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp. Að sjálfsögðu er sundlaugin líka opin fyrir gesti og sértilboð er á gistingu í uppbúnum rúmum um helgina. Búið er að setja saman heilmikla dagskrá fyrir helgina og fylgir hún hér á eftir. Gestgjafar í Reykjanesi vilja benda á að unglingum undir 18 ára er ekki leyft að tjalda um helgina nema í fylgd með forráðamönnum.

Föstudagur

Mæting á svæðið, fólk kemur sér í gistingu, hvort heldur er í tjöldum eða nýtur tilboðsins sem í boði er, en það er tveggja manna uppbúið herbergi með morgunverði og kvöldverði (réttur dagsins) á 8.400,- herbergið, eða 4.200 á manninn ef tveir saman í herbergi.
Réttur föstudagskvölds er: Steiktir kjúklingabitar með frönskum og sósu.

Að sjálfsögðu verður Baldursbrá opin fyrir gesti og gangandi.

Laugardagur

11.00 – gönguferð um nesið, Guðbrandur verður með leiðsögn um nesið og segir frá ýmsu því sem hér hefur verið undanfarnar aldir.
14.45 – Leikir á íþróttavelli.
15.00 – Önnur gönguferð um nesið.
19.00 – kvöldverður, hvort heldur er grill eða réttur dagsins sem er þriggja rétta, súpa, svínahamborgarahryggur með meðlæti og ís með ávöxtum á eftir.
22.00 – Skemmtun við tjaldsvæði þar sem Guðbrandur verður með uppistand og vara-eldurinn verður tendraður í fyrsta skipti í sögu heimsins, A.T.H. þetta er alheimsfrumsýning á vara-eldinnum.
23.30 – Gummi Hjalta á Baldursbrá, Gummi er náttúrulega heimsfrægur hér fyrir vestan og mun spila á Baldursbrá fram á rauða nótt …

Sunnudagur

11.00 – Gönguferð um nesið.
14.00 – Ratleikur fyrir yngra fólkið, og einnig þá sem eru ungir í anda.
Réttur dagsins verður lambalæri og meðlæti, eða ofnbökuð Ýsa með salati, kartöflum og sósu.

00.00 – Gummi Hjalta á Baldursbrá

Og svo er náttúrulega laugin nýhreinsuð, heit og fín í fullu fjöri alla helgina og býður eftir að taka á móti fólki.