03/05/2024

Fjöldi fólks tilnefndur sem Strandamenn ársins 2011

Síðasti dagur í kosningu á Strandamanni ársins 2011 er runninn upp og því er hver að verða síðastur til að skila inn atkvæði sínu. Kosið er á milli þriggja einstaklinga nú í síðari umferð, en þeir eru Arnar S. Jónsson tómstundafulltrúi í Strandabyggð, Eva Sigurbjörnsdóttir hótelstjóri á Hótel Djúpavík og Jón H. Halldórsson landpóstur á Hólmavík. Fjölmargir aðrir voru tilnefndir í kjörinu og fengu hrós frá samborgurum sínum fyrir fjölmargt sem vel var gert á árinu 2011. Hér að neðan er ætlunin að fara yfir ýmsa sem tilnefndir voru, svona til að minna á allt það sem vel er gert í samfélaginu, en það er einmitt tilgangurinn með þessum leik sem vefurinn strandir.saudfjarsetur.is hefur staðið fyrir frá 2004.

Meðal þeirra sem tilnefndir voru má nefna Ingibjörgu Valgeirsdóttur sveitarstjóra í Strandabyggð, fyrir "jákvæðni, skörungsskap og dugnað" og "einlægan vilja til að stefna í átt til uppbyggingar". Helstu einkenni þessarar "heiðurskempu og valkyrju" eru sögð "jákvæður andi, húmor og hlýlegt viðmót". Smári Gunnarsson fékk tilnefningar, en hann samdi og sýndi einleikinn Skjaldbökuna á síðasta ári – "flottur strákur sem er Strandamönnum til sóma": Hadda Borg Björnsdóttir í Þorpum við Steingrímsfjörð var einnig tilnefnd, "flottur íþróttamaður" sem var á árinu kjörin íþróttamaður ársins hjá HSS og keppti með góðum árangri á fjölmörgum mótum, vann m.a. í hástökki á Unglingalandsmótinu. Birkir Stefánsson í Tröllatungu er tilnefndur, "ótrúlegur dugnaðarforkur í skíðagöngu".

Guðmundur Björgvin Magnússon sparisjóðsstjóri á Hólmavík fékk tilnefningar í fyrri umferð fyrir að hafa "með stakri prýði haldið Sparisjóði Strandamanna á floti, og utan afskipta ríkisins, í ólgusjó og umbrotum síðastliðinna ára." Ragnheiður Edda Hafsteinsdóttir var tilnefnd og sögð "jákvæður dugnaðarforkur", "ávallt með bros á vör" og hefur staðið sig vel einkar vel sem útibússtjóri Kaupfélagsins í Norðurfirði og við önnur störf. Ingvar Pétursson á Hólmavík fékk atkvæði fyrir "óþrjótandi dugnað við atvinnuuppbyggingu". Bára Karlsdóttir á Hólmavík var líka tilnefnd fyrir "ótrúlegan dugnað" og "einstaklega góðan mat" og að hafa "auglýst Hólmavík og Strandir einstaklega vel með frábæru starfi".

Ágúst Guðjónsson frá Heiðarbæ var tilnefndur fyrir björgunarafrek, þar sem hann "bjargaði fólki úr rútunni sem lenti í hremmingum" í Múlakvísl í sumar. Helga Björk Pálsdóttir fékk tilnefningar fyrir að hafa "staðið sig frábærlega sem læknir og í rannsóknarvinnu" og fær hrós fyrir að vera bæði "dugleg og frábær". Kristín Sigurrós Einarsdóttir var tilnefnd fyrir "gott starf í fræðslumálum og leikfélagsmálum".

Guðmundur Vignir Þórðarson var tilnefndur, en hann hefur lokið námi í skrúðgarðyrkju og unnið verkefni á því sviði "sem eftir er tekið" og einnig keppt á mótum í sinni grein hérlendis og erlendis með góðum árangri. Jón Jónsson menningarfulltrúi á Kirkjubóli var tilnefndur fyrir "öfluga þátttöku í menningarlífinu", vera "óþreytandi við að koma Ströndum á framfæri" og að hafa haldið úti "vefnum strandir.saudfjarsetur.is árum saman". Ester Sigfúsdóttir á Kirkjubóli var einnig tilnefnd fyrir að hafa "staðið sig með sóma á Héraðsbókasafni Strandasýslu og hjá Ferðaþjónustunni Kirkjuból" síðustu ár og fyrir að vera "alltaf í góðu skapi". Bókakvöld og uppákomur sem hún hefur staðið fyrir síðustu árin fengu hrós.

Arinbjörn Bernharðsson í Norðurfirði fékk tilnefningar fyrir "dugnað og framtak í ferðaþjónustu" og svipaða umsögn fengu Ásbjörn Magnússon og Valgerður Magnúsdóttir á Drangsnesi. Jón Ísleifsson fyrrverandi sóknarprestur í Árnesi fékk einnig atkvæði. Einar Indriðason framkvæmdastjóri Sorpsamlagsins fékk atkvæði í fyrri umferð og kom fram að hann hefði "unnið afrek við að hvetja fólk við að flokka sorp". Sérstaklega var hrósað nýlegum framkvæmdum við húsnæði samlagsins svo íbúar gætu losað sig við flokkað sorpið hvenær sem er.

Hrönn Magnúsdóttir á Bakka í Bjarnarfirði var tilnefnd, en hún yfirvann erfið veikindi "af einstakri þrautseigju og dugnaði" á síðasta ári. Hún er "jákvæð og fallega þenkjandi manneskja, Strandamönnum til sóma". Ásdís Jónsdóttir á Hólmavík fékk tilnefningar fyrir að vera "sannkallaður "gleðigjafi", "frábær kona", "kát og hress og til í allt". Þá fékk Bjarki Hólm Guðlaugsson á Hólmavík atkvæði fyrir að vera "hjálpsamur með allt". Ólafur Thorarensen fékk atkvæði og er sagður vera "flottur karl".

Einnig fengu nokkrir hópar atkvæði. Þar á meðal voru Árneshreppsbúar í heild sinni, sem eru sagðir aðdáunarverðir og Leikfélag Hólmavíkur sem hefur staðið sig ljómandi vel í leiklistinni á árinu 2011.

Vefurinn strandir.saudfjarsetur.is hvetur Strandamenn alla til að hugsa fallega hver um annan, sýna samstöðu og vera í daglegu lífi ósparir á hrósið fyrir það sem vel er gert.