22/12/2024

Fjögur umferðaróhöpp á Vestfjörðum

Í fréttatilkynningu lögreglunnar á Vestfjörðum kemur fram að í síðastliðinni viku urðu fjögur umferðaróhöpp á Vestfjörðum. Tvö minniháttar óhöpp urðu, annað á Ísafirði á mánudaginn og hitt á Patreksfirði þriðjudaginn 10. febrúar, en ekki urðu miklar skemmdir á ökutækjum. Á fimmtudaginn varð umferðaróhapp í Vestfjarðargöngunum, Súgandafjarðarmegin. Þar lenti flutningabíll utan í göngunum þegar ekið er inn í þau úr vegskálanum frá Súgandafirði. Þar mætti flutningabíllinn fólksbíl þar sem þrengst er og beygja á veginum og vegsýn ekki góð. Þá lenti bifreið út af í Álftafirði á laugardaginn, þegar ökumaður missti vald á bílnum. Talsverðar skemmdir á bílnum, en engin slys á fólki.

Talsveður erill var hjá lögreglunni á Ísafirði um helgina, talsvert um pústra og ölvun og ein líkamsárás var kærð til lögreglu. Á laugardag var bifreið stolið þar sem hún stóð við Hafnarstræti, en hún fannst skömmu síðar óskemmd. Lögregla vill brýna fyrir ökumönnum og umráðamönnum ökutækja að skilja ekki þannig við ökutæki að óviðkomandi aðilar geti tekið bifreiðarnar traustataki.

Einn var tekinn fyrir of hraðan akstur á Ísafirði þar sem hámarkshraði er 35 km/klst. Þá var einn ökumaður var tekinn í akstri á Ísafirði, grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.