14/09/2024

Fjöldi fólks tilnefnt sem Strandamenn ársins

Margar hendur vinna létt verkNú liggja úrslit í kosningunni um Strandamann ársins 2008 fyrir, en þau verða fyrst kynnt formlega í fréttablaðinu Gagnvegi sem kemur út á miðvikudag. Eftir það verða úrslitin birt hér á strandir.saudfjarsetur.is. Þau þrjú sem kosið var um, Bjarni Ómar Haraldsson, Ingibjörg Sigvaldadóttir og Sigurður Atlason, eru öll vel að því komin að vera í þremur efstu sætunum. Áður hefur verið farið yfir afrek þeirra á síðasta ári, en að sjálfsögðu voru fjölmargir aðrir einstaklingar tilnefndir fyrir margvísleg afrek og uppátæki á árinu 2008. Hér fyrir neðan er sagt í stuttu máli frá hinum og þessum öðrum sem fengu tilnefningar í fyrstu umferð í kosningunni um Strandamann ársins 2008 og birt dæmi um umsagnir. Rétt er að taka fram að listinn er ekki tæmandi og ekki eru allar umsagnir birtar:

Guðmundur Þorsteinsson á Finnbogastöðum í Árneshreppi fékk margar tilnefningar fyrir að "gefast ekki upp eftir brunann á Finnbogastöðum heldur byggja bara nýtt hús", en íbúðarhúsið brann í júní sl. og nýtt hús er nú risið. Hrafn Jökulsson var einnig tilnefndur fyrir að standa "rækilega við bakið á Guðmundi á Finnbogastöðum eftir brunann þar" og einnig fyrir  "hvatningu við Árneshreppsbúa í heild". Þá var Hannes Hilmarsson vinnuvélastjóri á Kolbeinsá í Hrútafirði tilnefndur fyrir að sýna "ótrúlegt snarræði við að bjarga mannslífum þegar hann setti bíl sinn hálfan útaf brúnni á Langadalsá" síðastliðið sumar".

Nýráðinn kaupfélagsstjóri KSH, Jón Eðvald Halldórsson, fékk tilnefningar og var sagður "duglegur drengur" og fram kom að menn eru stoltir af honum "að ætla að takast á við þetta mikla starf sem Kaupfélagsstjóri Standamanna er" og ánægðir með að "hans hugur stefnir á að koma í heimabyggð". Fráfarandi kaupfélagsstjóri, Jón E. Alfreðsson, var einnig tilnefndur fyrir "farsælan starfsferil í áratugi sem kaupfélagsstjóri KSH" og að starf hans hjá kaupfélaginu hafi "einkennst af samviskusemi og þrautseigju". Þá fengu Gunnsteinn Gíslason og Margrét Jónsdóttir tilnefningu fyrir "gott og farsælt starf hjá Kaupfélaginu í Norðurfirði í gegnum árin".

Skólastjórarnir í Grunnskólanum á Hólmavík, Victor Örn Victorsson og Kristján Sigurðsson, voru tilnefndir fyrir að "halda skólanum gangandi með glimrandi tónlistar- og íþróttalífi þrátt fyrir sífelldan þrýsting frá sveitarstjórn um niðurskurð". Friðgeir Höskuldsson á Drangsnesi var einnig nefndur, en hann og áhöfn hans hefur staðið fyrir þróun og uppbyggingu á kræklingarækt í Húnaflóa. Um Friðgeir sagði m.a. að hann hafi "lyft  Grettistaki" og að "hans árangur er hvatning fyrir marga í flóanum". Þá var sauðfjárbóndinn Jón Stefánsson á Broddanesi tilnefndur vegna "framúrskarandi afkomu í sauðfjárrækt" og hann sagður vera "sá besti í Strandasýslu og einn sá besti á landinu". Eins var Guðmundur Björgvin Magnússon sparisjóðsstjóri á Hólmavík tilnefndur fyrir að "vera réttur maður í réttu starfi á réttum stað og á réttum tíma".

Af yngri kynslóðinni sem fékk atkvæði má t.d. nefna að Stella Guðrún Jóhannsdóttir á Hólmavík sem er á þrettánda ári var tilnefnd, en hún var tilnefnd fyrir snör og hárrétt viðbrögð þegar hún lenti í að stjórna aðgerðum, hringja í Neyðarlínuna og taka á móti sjúkraflutningsmönnum í október. Um það er sagt að hún hafi "staðið sig frábærlega og ekkert fát verið á henni, heldur hafi hún gengið hreint til verks". Daníel Freyr Newton á Hólmavík var einnig tilnefndur fyrir að "standa sig eins og hetja", en Daníel fór í hjartaaðgerð til Bandaríkjanna í maímánuði, sem gekk að óskum.

Af íþróttagörpum var hinn 16 ára gamli Guðjón Þórólfsson á Hólmavík vinsæll, en hann fékk tilnefningar m.a. fyrir að "vinna afrek" og "fyrir frábæran árangur í íþróttum". Þess má geta að Guðjón náði fyrsta sæti í hástökki á Meistaramóti Íslands á Sauðárkróki í ágúst og öðru sæti á Unglingalandsmóti UMFÍ. Þá fengu Vasagöngufararnir 2008, þeir Rósmundur Númason og Birkir Þór Stefánsson, atkvæði fyrir að "hafa staðið sig frábærlega". Birkir fékk einnig atkvæði fyrir að hafa "búið til strák".

Í ferðaþjónustu og menningarlífi voru Strandamenn ársins 2007, Valgerður Magnúsdóttir og Ásbjörn Magnússon á Drangsnesi, tilnefnd fyrir að hafa "skarað fram úr" og "sýnt mikinn dugnað og djörfung við atvinnuuppbyggingu á Ströndum". Jón Jónsson á Kirkjubóli, menningarfulltrúi Vestfjarða, var tilnefndur fyrir að vera "frábær fulltrúi Stranda í ferðaþjónustu og  menningu" og hafa "breytt samfélaginu til hins betra með strandir.saudfjarsetur.is". Arnar Snæberg Jónsson á Hólmavík, framkvæmdastjóri Sauðfjárseturs á Ströndum, fékk líka tilnefningar fyrir að vera "drengur góður og öflugur í menningarlífi" og eiga "heiður skilinn fyrir framlag sitt til menningarmála sveitarinnar". Þá var Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir, kennari á Hólmavík, tilnefnd fyrir "starf að leiklistinni með krökkunum í skólanum" og að "stýra uppsetningu á Dýrunum í Hálsaskógi" síðastliðið vor.

Fleiri ferðaþjónar fengu atkvæði fyrir uppbyggingu á árinu. Þannig voru Sævar Benediktsson og fjölskylda á Hólmavík tilnefnd fyrir "frábærlega vel heppnaðar lagfæringar á Steinhúsinu" og fyrir að hefja ferðaþjónustu þar á árinu. Hafþór Þórhallsson á Hólmavík var einnig tilnefndur fyrir að "stórgott framtak við að lappa upp á Ráðaleysið" og koma á laggirnar handverkshúsi og "opnu verkstæði og vinnustofu fyrir fuglasmíði". Þá var Edda Hafsteinsdóttir tilnefnd fyrir "vel heppnaðan rekstur á Kaffi Norðurfirði" sem tók til starfa á síðasta ári.

Sverrir "Bassi" Guðbrandsson á Hólmavík var tilnefndur fyrir gangstéttamokstur, en Sverrir smíðaði snjóplóg framan á fjórhjól sitt seint á síðasta ári og hefur verið "öflugur við að ryðja gangandi vegfarendum á Hólmavík greiða slóð". Þá var Jón Halldórsson frá Hrófbergi tilnefndur fyrir að halda úti "frábærri vefsíðu fyrir brottflutta Hólmvíkinga" og "ekki má gleyma frábæru myndunum hans". Að lokum skal nefna að Kristín Sigurrós Einarsdóttir á Hólmavík fékk tilnefningar fyrir að halda úti fréttablaðinu og fyrirtækinu Gagnvegi, "vinna frábært starf í upplýsingamiðlun" og "bjóða upp á ódýra prentun á alls konar dóti fyrir alla Strandamenn".

strandir.saudfjarsetur.is þakka öllum þeim er sendu inn atkvæði og tilnefningar. Um leið eru Strandamenn hvattir til að láta ekki deigan síga á árinu 2009 og halda áfram góðum verkum, samfélaginu, sjálfum sér og öðrum til heilla!