01/05/2024

Fjalladrottning valin besta rúllupylsan

IMG_8330

Um helgina fór fram Íslandsmeistaramót í rúllupylsugerð á Sauðfjársetri á Ströndum í samvinnu við Slow Food samtökin. Gestum og gangandi var boðið upp á að smakka dýrindis rúllupylsur sem gerðar voru með margvíslegum aðferðum. Ellefu rúllupylsur kepptu um Íslandsmeistaratitilinn og voru fæstar þeirra hefðbundnar. Sérvalin dómnefnd undir forystu Sverris Þórs Halldórssonar matreiðslumeistara dæmdi pylsurnar eftir bragði, áferð, lykt og mörgum öðrum þáttum. Í fyrsta sæti varð pylsan Fjalladrottningin (villijurtakrydduð) sem Hafdís Sturlaugsdóttir og Matthías Lýðsson bændur í Húsavík gerðu, en þau selja einmitt margvíslega matvöru í gegnum verkefnið Beint frá býli. Í öðru sæti varð rúllupylsan Strandasæla, sem Jón Jónsson aðstoðarmaður hjá Ferðaþjónustunni Kirkjuból á Ströndum hafði útbúið, með ótæpilegu magni af sojasósu, rauðlauk og sveppum. Í þriðja sæti varð rúllupylsan Ein með öllu sem Jón Valur Jónsson og Dagrún Ósk Jónsdóttir á Kirkjubóli gerðu, en þau notuðu hráan lauk og steiktan, tómat, remúlaði og sinnep í sína rúllupylsu. Sú pylsa var einnig valin sú frumlegasta í keppninni.

Keppnin fór ljómandi vel fram og höfðu menn gaman af, en auk rúllupylsukeppninnar og smakksins fyrir gesti og gangandi, voru sölubásar með ýmsum varningi í anddyri Sauðfjársetursins, kaffihlaðborð á boðstólum á Kaffi kind og frítt inn á sýningar safnsins í tilefni dagsins.

IMG_8256 IMG_8258 IMG_8267 IMG_8292 IMG_8295 IMG_8300 IMG_8302 IMG_8312 IMG_8321 IMG_8325