20/04/2024

Nýsköpunarkeppni: Örnámskeið í gerð viðskiptaáætlana

645-amstu1

Fjórðungssamband Vestfirðinga og Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða efna til Nýsköpunarkeppni Vestfjarða 2013. Keppnin er hluti af sóknaráætlun landshlutans og eru vegleg verðlaun í boði. Frestur til að skila inn viðskiptaáætlunum í keppnina er til 2. desember. Keppnin miðar að því að styðja við frambærilegar nýsköpunarhugmyndir og styðja við frumkvöðla til framkvæmda með fjárframlagi og faglegri ráðgjöf. Þessar hugmyndir eiga svo að styðja við uppbyggingu atvinnulífs á Vestfjörðum. Endanlegt markmið keppninnar er að styðja fjögur verkefni með fjárframlagi sem m.a. yrði til þess að skapa ný störf. Nýsköpunarkeppni Vestfjarða 2013 mun veita 14 milljónir í verðlaun fyrir fjórar bestu nýsköpunarhugmyndirnar.

Nýsköpun er mikilvægur þáttur í vexti og uppbyggingu hagkerfa. Í núverandi efnahags ástandi er nauðsynlegt að nýsköpunarhugmyndir fái allan þann stuðning sem mögulegt er. Reynslusögur frumkvöðla eru oftast á þann veg að það sé erfitt að fá fjármögnun til að hefja rekstur og koma viðskiptahugmynd á það stig að hún þyki aðlaðandi fyrir fjárfesta.

Örnámskeið í gerð viðskiptaáætlana

Haldin verða þrjú námskeið á Vestfjörðum í gerð viðskiptaáætlana í tilefni af keppninni og er námskeið á Hólmavík í kvöld, miðvikudaginn 27. nóvember. Markmiðið er að gefa stutt yfirlit yfir hvað góð viðskiptaáætlun þarf að innihalda og hvaða hjálpartæki eru í boði fyrir þá sem hafa hug á að taka þátt í keppninni. Námskeiðið fer fram í Þróunarsetrinu á Hólmavík í aðstöðu dreifnámsins á 3. hæð. Námskeiðið er ókeypis og er öllum opið. Enga sérþekkingu þarf til að sitja námskeiðið og er það hugsað fyrir byrjendur jafnt sem lengra komna. Skráning á námskeiðið er hjá Viktoríu Rán í viktoria@atvest.is eða í s. 4510077.

Dagskrá örnámskeiðanna:

Námskeiðin eru haldin á einni kvöldstund frá kl. 18 til 22.

Þau atriði sem farið er yfir á námskeiðinu:

– Almennt um keppnina
– Inngangur að viðskiptaáætlun
– Hvað er góð nýsköpunarhugmynd
– Markaðsmál
– Rekstrarlíkan