08/11/2024

Síminn dregur úr þjónustu

Samkvæmt heimildum strandir.saudfjarsetur.is verður þjónustumiðstöð Símans á Sauðárkróki opin út þessa viku, en starfsfólki þar hefur verið sagt upp. Í lok janúar tilkynnti Síminn um skipulagsbreytingar með áform um að breyta verslunarrekstri sínum og hætta þar með beinum verslunarrekstri á Sauðárkróki ásamt fjórum öðrum stöðum á landsbyggðinni. Í ljós hefur komið að um viðameiri breytingar er um að ræða. Þjónustumiðstöð Símans á Sauðárkróki hefur þjónað Strandamönnum sem hafa verið í viðskiptum við fyrirtækið og þurfa því væntanlega að leita til Reykjavíkur í framtíðinni með þjónustu.

Nokkuð er um að einstaklingar hafi fært viðskipti sín til samkeppnisaðila Símans í mótmælaskyni við fjandsamlegar áherslubreytingar fyrirtækisins gagnvart landsbyggðinni eftir að það fór á frjálsan markað. Skemmst er að minnast uppsagnir starfsfólks á Ísafirði, en Ísafjarðarbær hefur íhugað möguleika á að skipta um þjónustuaðila vegna símaþjónustu.